Ölvaður maður gekk inn í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar á skólatíma sl. fimmtudag og lét þar öllum illum látum. Viðstaddir; börn, foreldrar og starfsfólk skólans, urðu að vonum skelkuð en þrír karlar yfirbugðu manninn þar til lögreglan kom og handtók hann. Fjarðarpósturinn leitaði viðbragða hjá Eiríki Stephensen, skólastjóra TH, sem segir málið litið mjög alvarlegum augum þar á bæ.

„Þetta gerist á skólatíma í tónlistarskólanum og því nokkuð líf í húsinu en sem betur fer var hópurinn ekki stór sem upplifði sjálft atvikið. Mikil áhersla var lögð á það um leið að veita öllum þeim sem vitni urðu að atvikinu viðeigandi aðstoð og þjónustu, bæði nemendum og starfsmönnum og þeim foreldrum sem voru á staðnum,“ segir Eiríkur. Starfsmenn tónlistarskólans hafi brugðust strax hárrétt við og lagt áherslu á að verja umhverfið og umvefja nemendur sína.

Hús gleði og sköpunar

Haft var samband við foreldra og boðin áfallahjálp sem allir foreldrar þáðu. „Áfallaþjónustan verður svo unnin í takt við þarfir og upplifun hvers og eins. Eins er mál einstakra starfsmanna í skoðun með lögreglu. Tónlistarskólinn er hús gleði og sköpunar og við viljum hafa hann opinn og aðgengilegan enda starfsemin þess eðlis. Við munum samt sem áður fara í það að endurmeta öryggismálin hjá okkur gagngert til að tryggja öryggi nemenda og starfsmanna. Skoða góðar og hentugar lausnir sem efla öryggið enn frekar.“

Drónamynd/OBÞ