Það var ljómandi huggulegt núna á sunnudagskvöld að náttúran skyldi skaffa okkur eldingu sem sló út rafurmagninu í nær gervöllum Hafnarfirði, og svo fengum við aðra í myrkrinu sem lýsti upp himininn og skaffaði helvíti hressilegt dúndur í kjölfarið sem vakti báða hundana.

Hér á Strandgötunni voru dregin fram kertaljós og myndaðist stemmning sem minnti á jólin.

Í minningunni var í raun alltaf straumlaust á aðfangadag. Landsvirkjun hamaðist við að virkja en átti aldrei sjens í klukkutímann þegar hver einasta húsmóðir landsins var með allar hellur eldavélarinnar stilltar á ellefu af tíu mögulegum, ofninn á sjóðandi blússi og jólaljósafargan sem lýst gæti upp fótboltavöll. Þetta olli því að spennustöðvarnar voru við það að bráðna og rafveitukallarnir gerðu ekki annað en að slá inn rofum svo jólaljósin blikkuðu eins og á fínasta diskóteki.

Þetta er því miður liðin tíð, rafkerfið er orðið það öflugt að rafveitukallarnir geta áhyggjulaust haldið sig heima og unnið að lífsstílssjúkdómum með ofáti á sykruðum, reyktum og pækilslegnum kræsingum.

En þá kemur hlýnun jarðar okkur til bjargar og skaffar okkur þessar líka fínu eldingar til að leyfa okkur að njóta nokkurs sem við fáum allt of sjaldan að njóta innanbæjar, nefnilega myrkursins.

Ég væri meira en til í að njóta þess oftar. Þótt öll ljós séu slökkt heima þá pusa fjárans ljósastaurarnir birtu inn um alla glugga alveg óumbeðið. Það væri vísast ekki vinsælt hjá bæjayfirvöldum ef ég gripi til stórvirkra tækja og sagaði þá niður.

Því reikar hugurinn til fortíðar. Hér var lengi vel ekkert sjónvarp á fimmtudögum, hvernig væri að hafa ekkert rafmagn á sunnudögum.

Já hvernig væri það? Það væri líklega alveg glatað…en samt.

Ást og friður

Tommi