Maðurinn sem lést í vinnuslysi í Hafnarfirði síðasta mánudag hét Einar Ólafur Steinsson og var 56 ára. Einar Ólafur lætur eftir sig eiginkonu og fjögur uppkomin börn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Að sögn Margeirs Sveinssonar, stöðvarstjóra á lögreglustöðinni í Hafnarfirði, féll hinn látni úr einum tveggja krana sem standa við hjúkrunarheimilið Sólvang, en framkvæmdir vegna viðbyggingar hafa staðið þar yfir um tíma. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vinnur að rannsókn málsins.