Tvíburabræðurnir Ólafur og Guðjón Sveinssynir telja að þeir hafi fæðst um tíuleytið að morgni og vita að það var 4. desember 1946. Þeir urðu 71 árs daginn sem þeir voru plataðir í þetta viðtal og tóku því með stóískri ró, sem einkennir þá báða. Þó meira Ólaf, sem alltaf er kallaður Óli. Guðjón, sem kallaður er Gaui vill þó meina að hann sé þögla týpan. Óli er ósammála því og hæðniskotin ganga þeirra á milli. Bræðrakærleikur af gamla skólanum í sinni fallegustu mynd.

Óli og Gaui panta sér báðir te á Pallett; Óli grænt og Gaui svart. „Óli er heilbrigðari en ég þótt við höfum báðir hætt að drekka kaffi!“ segir Gaui. Óli lýsir því hvers vegna hann hætti að drekka kaffi. „Þá vann ég í Fjarðarkaupum og það var brjálað að gera á föstudegi en ég fór heim veikur og lá í hnút. Þegar ég var búinn að reyna að hvíla mig fékk ég mér kaffibolla og þá hvarf höfuðverkurinn. Þetta voru fráhvörf því ég hafði ekki drukkið kaffi í sólarhring. Þá vissi ég að það var réttur tími að hætta kaffidrykkju.

Bræðurnir á grunnskólaaldri. 

Kyssti rangan bróður

Bræðurnir segjast framan af og alla tíð hafa verið mjög líkir í útliti. „Það var strákur sem bjó á 3. hæð í sama húsi og við, Haukur hét hann, sem spurði alltaf eftir Gaua og Óla,“ segir Gaui. Við þekkjum ekkert annað en að vera tveir saman. Það tóku margir feil á okkur í tímans rás, sérstaklega þegar við vorum yngri,“ segir Óli og Gaui bætir við: „Við þurftum oft að gera grein fyrir því hvor okkar við værum. Ef einhver heilsaði manni þá heilsaði maður á móti. Ef maður lenti í vandræðum þá sagði maður bara: Nei ég er hinn! Ég man þegar Óli var giftur konu, Steinunni, og ég fékk að gista hjá þeim inni í stofu. Ég var sofandi og Óli farinn í vinnuna. Hún var að koma af vakt og rauk beint til mín þar sem ég lá, kyssti mig og sagði voða elskulega: Óli, minn ertu ekki enn farinn í vinnuna?“ (Þeir skellihlæja báðir)

„Er ég ekki þögla týpan?“

Eitt sinn voru þeir bræður að gera styrktaræfingar á fótboltaæfingu þar sem þeir stóðu á móti hvor öðrum, m.a. með því að stíga upp og niður þrep. „Þá leið okkur eins og við værum að horfa á spegil því við vorum alveg í takti. Við fórum báðir að hlæja,“ segir Gaui, sem jafnframt tekur fram að þeir séu ekki líkar persónur. „Óli er rólegri en ég. Hann er yfirvegaðri.“ Óli: „Það útskýrist kannski vel í þeirri sögu að eitt sinn vorum við saman í golfi í Svíþjóð og þá segir Gaui upp úr þurru: Er ég ekki þögla týpan? Ég sprakk því hann getur labbað inn á meðal fólks og talað eins og ekkert sé en ég þegi yfirleitt eða hef ekki þörf fyrir að tala, ólíkt honum.“

Gaui: „Ja, ég upplifi mig þöglu týpuna en get ekki rökrætt það við Óla“.

Upplifði höfnun þegar hinn gekk út

Óli: „Þegar við vorum ungir þá stjórnaði Gaui mér. Stundum mátti ég koma með þegar hann fór eitthvað og stundum ekki. Það fór eftir því með hvaða vinum hann var. Ég var dálítið kúgaður ungur maður. Þegar ég er varð 18 eða 19 ára og eignaðist kærustu þá þurfti átak í að láta Gaua ekki stjórna mér lengur.“ Gaui: „Það var sko heilmikil höfnun sem ég upplifði og við ræddum það síðar betur og ég gat unnið úr því.“

Báðir störfuðu þeir sem þjónar. Óli kláraði til þjóns en Gaui ekki. Óli: „Ég kallaði hann bara aðstoðarmann í sal!“ Í dag starfar Óli sem framreiðslumaður í Bláa lóninu og hefur verið þar í 11 ár. Áður var hann ráðgjafi hjá SÁÁ í 10 ár. Gaui starfar sem forstöðumaður á Vernd, hjá föngunum, og hefur verið þar undanfarin 14 ár.

Annar trúaður – hinn ekki

Þeir bræður segjast vera góðir vinir og að þeir tali mikið saman. „Við höfum oft farið í golfferðir og alls kyns ferðir. Allt gengið vel en alltaf einhver keppni á milli okkar. Gaui er betri í golfi og í eitt sinn var ég betri og var að núa honum því um nasir. Gaui varð reiður og ég bað hann afsökunar. Síðan tók hann afsökunarbeiðninni og þá var það búið. Engin langrækni,“ segir Óli og bætir við að Gaui hafi einnig oftast verið betri en hann í íþróttum eins og fótbolta og sundi. „Eitt sinn ruglaðist sundkennarinn á okkur og setti mig upp á verðlaunapall í stað Gaua og ég sagði ekki orð!“

Gaui: „Við höfum líka farið ólíkar leiðir í lífinu. Ég hef til dæmis farið andlegu leiðina en Óli trúir ekki á rassgat! Ég er jógakennari og hef gaman af því að spá í fólk og lífið.“ Óli: „Ég trúi á það góða, kærleikann og allt það. Ég hitti nú eitt sinn Búddhamunk í grunnbúðum Everest (bílastæðinu! – skýtur Gaui inn), sem blessar fjallgöngufólk. Þá gerðist eitthvað og hafði mikil áhrif á mig. Einhvers konar andleg vakning.“

Í lokin er tvíburarnir beðnir um að nefna kosti hvors annars. Gaui svarar (að sjálfsögðu) á undan: „Besti kostur Óla er heiðarleiki. Stundum alveg leiðinlega heiðarlegur. Hann segir bara hlutina hreint út.“ Óli: „Gaui talar aldrei illa um fólk sem er mikill kostur og hann er mjög trúr.“ Óli stundar fjallgöngu af kappi og dregur Gaua árlega upp á Esju, í blábyrjun nýs árs. Hann ætlar að gera enn betur og taka hann með sér á Hvannadalshnjúk í vor. „Ég veit að hann getur það!“ segir Óli að lokum.