Píratar vilja gott aðgengi. En hvað þýðir það nákvæmlega, aðgengi að hverju? Í hugum margra merkir hugtakið eingöngu að fötluðu fólki og eldri borgurum sé gert kleift að komast leiðar sinnar, sem í dag þykir sjálfsögð krafa.

En Píratar vilja meira. Píratar vilja að almenningur hafi aðgengi að ákvarðanatöku um mál sem hann snertir, oftar en á fjögurra ára fresti. Þess vegna vilja Píratar efla íbúalýðræði þannig að almenningi gefist kostur á að hafa bein áhrif á þróun nærsamfélagsins. Ég held að flestir geti tekið undir að þetta sé skynsamlegt.

Forsenda þess að almenningur geti tekið upplýstar ákvarðanir í slíkum kosningum er gott aðgengi að réttum og nákvæmum upplýsingum. Skipulagsmál, fjárreiður og möguleg hagsmunatengsl eða -árekstrar þurfa því að vera gagnsæ, og hægt þarf að vera að nálgast allar upplýsingar um þessi mál með greiðum hætti. Er þetta ekki sjálfsögð krafa?

Þegar fólk lendir í vandræðum eða skortir upplýsingar, liggur beint við að leita lausna á þjónustustofnunum eða heimasíðum þeirra. En sé fólk í þeirri stöðu að tala litla sem enga íslensku getur málið flækst, sérstaklega ef tengslanet og félagsleg staða eru veik. Aðgengi þessa fólks að upplýsingum og aðstoð er því sérlega mikilvægt. Liggur það ekki í augum uppi?

Krafa Pírata um gott aðgengi er því margþætt eins og sjá má hér að ofan. Þetta er þó ekki tæmandi listi. Væntanlega geta þó flestir tekið undir að þessi margþætta krafa sé alveg sjálfsögð.

Aðgengismál eru mannréttindamál og þau ber að tryggja. Atkvæði til Pírata er skref í þá átt.

 

Haraldur R. Ingvason, skipar 5. sæti á lista Pírata í Hafnarfirði