Nú ætla ég að gera svolítið sem ég hélt að ég myndi aldrei nokkurn tímann gera. Ég ætla að tala fallega um Norðurbakkann. Ég ætla allavega að reyna það. Það er ekki auðvelt að finna fagran blett á þessu monstrosíteti sem byggingarverktakarnir þröngvuðu upp á okkur í krafti nýtingarréttarskördeneitthvað.  Vel á minnst hvar er skútulægið sem planað var þar sem lóðsinn lá í denn?

En ég fann ljósan punkt (eftir talsverða leit), kvöld eitt þegar ég gekk með hundinn (lausan) eftir Norðurbakkanum varð mér skyndilega ljóst hvað það er sem mótar okkur Hafnfirðingana.

Hafnarfjörður, ólíkt nágrannasveitarfélögunum, veit allur niður að höfn. Bærinn hverfist allur um þetta svæði sem hann svo dregur nafn sitt af. Samspil þessa og einhverrar eðlisfræði sem ég hefði átt að læra í menntaskóla gerir það að verkum að hundruðir ef ekki þúsundir ljósa bæjarins beinast öll beint að þeim sem augum þau ber. Ljóskeilurnar sem koma frá hafnarmannvirkjum, holtinu Strandgötunni og víðar, mynda marglitan ljósferil eftir sjávarfletinum og miða beint á Hafnfirðinginn. Við erum öll stjörnur á sviði, við erum öll Björgvin Halldórsson á sviðinu á Hótel Íslandi böðuð í spotlightinu hvert skipti sem við förum í göngutúr.

Lagabálkur hins hógværa danska Jante var ekki kenndur í hafnfirskum grunnskólum. Öfundarmenn og konur í nærliggjandi sveitarfélögum kalla okkur oflátunga, þeir reyna svo að hía á okkur fyrir að borga himinhátt útsvar, en okkur er sama.

Við erum með sjúkrahús (pínu vandræðalegt ástand reyndar), flugvöll (ekki stóran) ógrynni sundlauga. Bíó, íþróttafélög í fremstu röð, bæjarróna og kjaftfora pólitíkusa.

Við erum ekki eitthvað helvítis hverfi, pöbbarnir okkar reyna ekki að selja þér Billy hillu. Við erum stoltir Hafnfirðingar. Og allt hefst þetta með göngutúrum bæjarbúanna að kvöldlagi meðfram höfninni.