Gísli Rúnar Guðmundsson stýrir menntaumhverfinu NÚ við Flatahraun, sem hefur verið starfrækt í tvö ár. Hann er fæddur á Selfossi, var mikið í sveit og kynntist þar alls konar fólki og vinnu og lítur á það sem algjör forréttindi og góðan grunn fyrir þau verkefni sem hann tekst á við í dag. Gísli Rúnar er hugsjónamaður sem langar að breyta skólakerfinu þannig að það verði valkvæðara fyrir nemendur og mæti þeim meira á þeirra forsendum.

„Ég man eftir mér mjög ungum að skoða styrkleika allra og sjá hvað hægt að virkja aðra. Ég byrjaði 15 ára að þjálfa handbolta og útskrifaðist af íþróttabraut við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Eftir það flutti ég til Vestmannaeyja og lék með ÍBV í handbolta,“ segir Gísli Rúnar. Á sama tíma velti hann fyrir sér hvort hann ætti að gerast kennari og tók að sér forfallakennslu við barnaskólana þar. „Ég var með flestar kenndar stundir af öllum kennurunum tvö ár í röð. Þar fékk ég góða kynningu og reynslu og bý að góðri reynslu í sarpinn.“

Finna styrkleika í vendinámi

Gísli Rúnar er mikill áhugamaður um ævisögur og hefur lesið þær ansi margar. „Það er hægt að læra svo margt af öðru fólki ef maður skoðar lífshlaup þess. Þessi mikli áhugi á fólki hjálpar mér við að setja mig í spor og skilja krakkana sem koma til mín í viðtöl því oft bjátar ýmislegt á hjá þeim á þessum aldri. Þegar kafað er ofan í því og félagslegar aðstæður þeirra, þá er hægt að vinna betur með það. Vendinámið sem við bjóðum upp á hjálpar til því því með því nálgumst við nemendur á þeirra forsendum og getum sniðið námið að þeim en samt farið eftir aðalnámskrá.“

Meginforsendan er vilji nemenda

Námsefnið er sett upp í lotur og er tilbúið á netinu í byrjum skólaárs. Nemendur þurfa því aðeins að sækja efnið, sem er mikið til í myndbandaformi, og horfa og hlusta. „Þetta er hvorki mötun né ítroðsla eins og algengt er. Nemendur okkar eru að breytast úr barni yfir í ungling og það eru mótandi ár. Það að taka ákvörðun um að velja þennan skóla er ákveðin yfirlýsing nemenda um að vera þar á eigin forsendum. Við tökum viðtöl við alla umsækjendur og forráðamenn til að meta hvort nemandinn vill sjálfur koma í skólann. Það er meginforsendan, annað kann ekki góðri lukku að stýra,“ segir Gísli Rúnar og bætir við að þótt öllum sé frjálst að sækja um sé Nú þemaskóli sem leggi áherslu á íþróttir. „Ef nemandi hefur ekki áhuga á íþróttum og tölvum þá erum við væntanlega ekki rétti skólinn fyrir hann.“

49 nemendur komast að í einu

Tæplega 40 sem sóttu um þegar skólinn var stofnaður fyrir tveimur árum og þegar hafa tólf útskrifast. Þetta skólaárið eru 49 nemendur í NÚ. Tveir starfsmenn eru í 100% starfi, tveir í 50% og þrír í hlutastörfum við kennslu. „Við erum með jafn marga íþrótta- og sundtíma og aðrir grunnskólar og vegna þess að krakkarnir sem eru hér æfa þegar íþróttir, þarf ekki fleiri slíka tíma. Það er svo margt annað sem þeim er leiðbeint með hér,“ segir Gísli Rúnar og tekur fram að gott samstarf sé við Suðurbæjarlaug, Tækniskólann, Björkina og Flensborg með húsnæði og mat.

Blandað skólakerfi er framtíðin

Fyrst minnst er á gott samstarf segir Gísli Rúnar að það sé engin tilviljun að Nú er í Hafnarfirði. „Meirihluti bæjarstjórnar var með það á stefnuskrá sinni að auka framboð á skólum og við vorum velkomin. Blandað skólakerfi er að þróast í OECD ríkjum. Okkur langar að stækka og það mun bara efla skólastarf á landsvísu að leyfa skólum eins og þessum að verða til. Þá eru komnir valmöguleikar fyrir nemendur sem finna sig frekar í fámennum skólum þar sem er meiri nánd. Ég sé alveg fyrir mér annan svona skóla þar sem haldið yrði utan um list- og verkgreinar. Þriðji gæti verið með leiklist, tjáningu, myndlist og aðra sköpun. Skyldunámið yrði þó eins alls staðar. Þetta skapar vettvang fyrir samkeppni og við getum boðið kennurum upp á meiri sveigjanleika en gengur og gerist. Það hlýtur að vera af hinu góða ef það myndast samkeppni og eftirspurn eftir góðum kennurum.“

Óvenjulegar skólastofur

Blaðamaður var furðu lostinn þegar Gísli Rúnar sýndi honum inn í eina skólastofuna, en þar var ekkert kennaraborð og örfáir stólar, dýnur á gólfum og standar meðfram veggjum þar sem hægt er vinna við tölvur. Nemendur sátu makindalega upp við veggi og vildu ekki fara heim þótt skólinn væri búinn þá vikuna. „Ég svara 2-3 póstum á viku þar sem fólk vill kynna sér skólann og við finnum að það er köllun eftir fjölbreytileika og öðrum aðferðum við kennslu. Ég velti fyrir mér hvort kerfið sé að leggja áherslur á rétta þætti og hvort mastkerfið á námi og skólum sé réttlátt og hvort spurt sé um einkunnur þegar farið er út á atvinnumarkaðinn. Það skiptir mestu máli að manneskja er heiðarleg, stundvís, dugleg, góð, skapandi, góð að vinna í hóp, búi yfir leiðtogahæfileikum o.s.frv. Við leggjum mikla áherslu á þessa mannlegu þætti með ræktun íþróttamannsins.”

Að sjálfsögðu í Skólahreysti

Hjá NÚ reynir starfsfólk að breyta orðræðu um skóla og kalla sig menntaumhverfi. „Nám getur farið fram alls staðar með þeim aðferðum sem við notum. Nám þarf ekki að vera bundið við „skóla“ eða vera stofnanavænt.“ Orðið heimanám nota þau ekki og Gísli segir það tímaskekkju. „Við erum með lotukerfi og leggjum fyrir verkefni sem krakkarnir klára þegar það hentar þeim best. Oft fer vinna fram heima hjá nemenda en það er hans val. Við í Nú erum öll kennarar en kjósum að líta frekar á okkur sem leiðbeinendur að mestu leyti. Við leiðbeinum nemendum á vegferð þeirra um menntaumhverfið. Orð skipta máli! Börnin vita líka oft meira en við um ýmislegt og eru sérfræðingar á sinn hátt. Allir nemendur fara í fimm tíma markþjálfun til að læra að setja sér skýr markmið. Þegar allt er komið af stað þá er ekkert eitt fag í gangi, heldur bara allir að vinna þar sem þeir eru staddir.“ Spurður að lokum segir Gísli: „Að sjálfsögðu! NÚ er hraustasti skólinn í Hafnarfirði. Við lentum í 4. sæti okkar riðli, efst skóla í Hafnafirði!

„Endilega komið í NÚ“

Við ræddum stuttlega við tvo nemendur í 8. bekk og spurðum þau álits um veruna og námið.  byrjaði í haust. Þau heita Aron Ben Daníelsson og Una Ragnarsdóttir.

Aron Ben kemur frá Hveragerðisskóla og segir að móðir hans hafið séð umfjöllun um skólann og valið hann fyrir sig. „Ég fann fljótt hvað hann átti vel við mig. Besta við NÚ eru kennararnir, íþróttirnar og NÚ-veran sem við byrjum hvern dag á. Styrkleikar mínir eru fótbolti og tölvur og það er svo þægilegt að geta unnið öll verkefni í tölvu. Það gerir öll verkefnaskil auðveldari. Og svo er líka frábært að geta byrjað daginn aðeins seinna á morgnana, þegar það er orðið bjart úti.

Una Ragnarsdóttir er Reykvíkingur og móðir hennar kennir í NÚ. „Ég hef verið tengd skólanum frá því að hann var stofnaður. Ég byrjaði svo sjálf í haust og fannst þetta spennandi sem vettvangur. Ég var í Langholtsskóla og hér eru miklu færri nemendur, andinn og stemningin öðruvísi á jákvæðan hátt. Hér eru allir saman nánast alltaf og kynnast því vel.“ Una segit styrkleika sína vera íslenska, enska og leiklist. „Ég er líka að æfa fótbolta með Þrótti. Það besta við kennsluna er vendinámið og lotukerfin. Þá er hægt að skipuleggja og vinna á sínum hraða. Endilega komið í NÚ!“

Húsnæði NÚ er á 2. hæð við Flatahraun 3. (Skjáskot af já.is)

 

Mynd af Gísa Rúnari: OBÞ

Aðrar myndir í eigu NÚ.