Nú – Framsýn menntun er nýr skóli á unglingastigi á Flatahrauni 3 í Hafnarfirði. Nú, er sjálfstætt starfandi skóli sem leggur áherslu á rafræna námshætti og íþróttir. Fjarðarpósturinn hitti Gísla Rúnar Guðmundsson skólastjóra og kennara og Kristján Ómar Björnsson, heilsustjóra skólans fyrsta skóladag og fékk smá innsýn í starfið sem þarna fer fram.

„Nú er fyrsti dagurinn okkar búinn og hann rann vel í gegn. Við erum með 34 nemendur úr ólíkum íþróttagreinum. Við erum með 5 nemendur utan Hafnarfjarðar og 29 úr Hafnarfirði. Þetta er þrælskemmtilegur hópur og við hlökkum mikið til að starfa með þeim áfram.“ Segir Gísli.

Nú, er nemendamiðaður skóli sem leitast eftir því að auka sjálfræði nemandans sem mest. „Við viljum að nemendur hafi val um ýmsa þætti í daglegu starfi. T.d. hvernig þeir fara í gegnum námið sitt, á hvaða hraða. Þeir velja sér námsmatsleiðir að einhverju leyti og nálgast námið á svipaðan hátt og íþróttamaður nálgast íþrótt sína. Setja sér markmið og vinna vinnuna sem þarf til að skila sér á leiðarenda.“ Segir Kristján Ómar og bætir við að Nú sé skóli sem starfar eftir aðalnámskrá grunnskóla og nýti sveigjanleikann í henni. Sérstaklega það sem snýr að vali. „Þar komum við íþróttunum að og gerum þeim hærra undir höfði.“

Frá vinstri: Edda Sóley Arnarsdóttir, nemandi, Kristján Ómar Björnsson, heilsustjóri, Margrét Sigurðardóttir, kennari, Gísli Rúnar Guðmundsson, skólastjóri og Halla María Gústafsdóttir, nemandi.

Frá vinstri: Edda Sóley Arnarsdóttir, nemandi, Kristján Ómar Björnsson, heilsustjóri, Margrét Sigurðardóttir, kennari, Gísli Rúnar Guðmundsson, skólastjóri og Halla María Gústafsdóttir, nemandi.

Hvernig fer námið fram?

„Við byrjum skóladaginn kl. 9. Við hefjum daginn í dagsbirtu. Í desember og janúar byrjum við því klukkan 10 til þess að vera andlega og líkamlega virk þegar við vinnum vinnuna og aðlögum okkur þannig að sólarganginum á þessum norðlægu slóðum.“
„Við viljum ögra því hefðbundna formi sem hefur verið nokkuð staðlað í gegnum tíðina. Við erum með fjölbreyttar vinnustellingar yfir daginn. Við reynum að halda nemandanum líkamlega virkum.“ Hjá Nú eru tímarnir styttri eða 25 mínútur en svo eru teknar 5 mínútna pásur á milli til þess að reyna að nýta betur vinnutímann yfir daginn.

Krakkarnir standa hluta tímans, sitja hluta tímans og liggja hluta tímans á dýnum á gólfinu og vinna.
„Við nýtum okkur aðferðarfræði sem kallast vendinám, eða flipped classroom á ensku. Við notum tæknina, sem gerir okkur kleift að einstaklingsmiða námið.“ Segir Gísli. Nú vinnur náið með Námsefnisbankinn á Selfossi sem sér þeim fyrir meiri hluta námefnisins. „Ef við tökum sem dæmi stærðfræði, þá er búið að taka upp kennara sem útskýrir stærðfræðina í stuttum fyrirlestrum. Nemendur geta því farið yfir efnið á sínum hraða og eins oft og þeir þurfa.“ Að sögn Gísla fer kennsla efnisins svona fram en svo er að sjálfsögðu hópavinna og ýmislegt annað í framhaldi af því.

„Við kennum í þriggja vikna lotum, færri fög í styttri tíma. Til að byrja með erum við t.d. með ensku, stærðfræði og samfélagsfræði. Við förum þess vegna mun dýpra í hvert fag. Samhliða þessu eru svo alltaf íþróttir og sund.“ Hverri einstakri lotu lýkur svo með námsmati. Hvernig námsmatið fer fram er svo á einhverju leyti byggt á styrkleikum hvers og eins. Sumir skrifa ritgerð, aðrir gera myndband, semja lag eða eitthvað slíkt.

Nú mun hefja veturinn á því að fara með hópinn í þriggja daga óvissuferð út á land, leiða þau í alls kyns þrautir og æfingar sem þjálfa þau á ýmsan hátt. „Við höfum trú á því að þetta sé góð leið til þess að hefja skólastarf.“ Segja þeir Gísli og Kristján að lokum fullir eldmóði.