Eyvindur Karlsson hefur fengist við tónlistarsköpun í á annan áratug, og semur og flytur gjarnan tónlist undir listamannsnafninu One Bad Day. Hann hefur gengið með plötu í maganum í rúmlega tíu ár, en hún hefur setið á hakanum vegna kvíðaröskunar og annarra atriða. Kvíðinn hefur fram til þessa komið í veg fyrir að verkefnið klárist, en nú verður ekki aftur snúið. Platan kemur út á föstudaginn og sama kvöld fara fram útgáfutónleikar í Gaflaraleikhúsinu.

Eftir áralanga þrautagöngu, þar af þriggja ára upptökuferli, brá Eyvindur á það ráð að safna saman hópi velunnara, vina og ættingja og fá þá til að veita sér aðhald og þrýsting til að klára verkið. Stuðningshópurinn sinnti sínu hlutverki vel, platan kláraðist og hópfjármögnun í kringum útgáfuna gekk mjög vel.

Platan ber heitið A Bottle Full of Dreams og kemur út nk. föstudag, 29. júní. Þá um kvöldið klukkan 21.00 blæs Eyvindur til glæsilegra útgáfutónleika í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði. Þar stíga valinkunnir tónlistarmenn á svið með honum og flytja lögin af plötunni, og fjölda annarra sem hafa safnast í sarpinn í gegnum árin, meðal annars í leikhúsinu, en Eyvindur hefur getið sér gott orð fyrir leikhústónlist. Síðast vann Eyvindur einmitt við söngleikinn Í skugga Sveins í Gaflaraleikhúsinu, þar sem hann fór einnig með eitt aðalhlutverkanna, en sýningin hlaut nýverið Grímuverðlaun sem Barnasýning ársins. Hægt er að kaupa miða á midi.is og í leikhúsinu.

Mynd aðsend.