Bæjarstjórn samþykkti samhljóða á síðasta bæjarsstjórnarfundi að leita eftir kaupum á Suðurgötu 14 sem hýsti til skamms tíma Skattstofu Reykjanesumdæmis.  Starfsmenn á Fjölskyldusviði hafa á undanförnum mánuðum unnð að að  undirbúningi að  nýjum vinnustað og virkniúrræði fyrir fatlaða og hreyfihamlaða í Hafnarfirði.  Ennfremur verði litið til þeirrar starfssemi sem nú þegar sinnir hæfingu og  starfsendurhæfingu í Hafnarfirði og skoðað hvort möguleiki er á samþættingu eða samvinnu verkefna.  Mikilvægt er að tryggja samfellu í þjónustu við þennan hóp og skoða jafnframt möguleika á því að auka fjölbreytni í atvinnuúrræðum fyrir aðra íbúa Hafnarfjarðar sem þurfa stuðning við að sinna störfum á almennum vinnumarkaði.

Í Hafnarfirði er fjölbreytt atvinnulíf og því eru tækifæri til samstarfs við fyrirtæki í bænum til staðar og það yrði að vera eitt af meginmarkmiðum með stofnun virkniúræðis fyrir fólk með sérþarfir að markvisst verði unnið að því að finna störf á almennum vinnumarkaði með starfsþjálfun og atvinnu með stuðningi.

Hús Skattstofunnar að Suðurgötu 14 fellur ákaflega vel að þeim hugmyndum sem eru í undirbúningi og þróun varðandi nýjan vinnustað að mati fagfólks sem hefur unnið að undirbúningi verkefnisins.  Lega hússins í miðbænum gefur möguleika á fjölbreytni í störfum og starfssemi og ekki þarf að gera verulegar breytingar á innra skipulagi þess.  Einnig mun önnur starfsemi rúmast þarna og tillögur þess efnis eru í vinnslu en hugmyndir eru til skoðunar um að nýta hluta hússins fyrir ungmennastarf.

Guðlaug Krisjánsdóttir

Formaður Fjölskylduráðs

Helga Ingólfsdóttir

Varaformaður Fjölskylduráðs

Mynd af Hafnarfirði: Olga Björt.