Inga Björk Ingadóttir músíkmeðferðarfræðingur og tónlistarkennari ákvað snemma að leggja músíkmeðferð fyrir sig og á Björtum dögum bauð fyrirtækið hennar, Hljóma, börnum á aldrinum 3 – 6 ára í tónlistarstundir við Austurgötu 38.

„Tónlistin hefur verið mín hjartans iðja frá barnæsku. Að vinna náið með öðru fólki að þeim verkefnum og áskorunum sem lífið færir, er mér einnig afar hugleikið, og músíkmeðferðin tengir þessa tvo þætti. Eftir tónlistarnám hér heima fór ég til Berlínar í nám í Músíkmeðferð. Að náminu loknu starfaði ég áfram í Þýskalandi með fjölbreyttum hópi skjólstæðinga, börnum og fullorðnum. Þar var ég svo heppin að kynnast kollegum með reynslu hver á sínu sérsviði, sem ég hef haldið nánu sambandi við eftir að ég flutti aftur heim,“ segir Inga Björk.

Inga Björk mundar lýru í Hafnarborg. Mynd/Olga Björt.

Starfsemi síðan 2014

Starfsemi Hljómu hófst í Hafnarfirði 2014. Síðan þá hefur Inga Björk tekið á móti börnum og fullorðnum sem hvert og eitt vinna með sín ólíku verkefni í lífinu. „Það eru forréttindi að fá að fylgjast með því sem ferlið getur áorkað. Hvort sem það er opnun og slökun, aukin tjáning eða skerpt einbeiting. Og möguleikarnir spanna afar breytt svið, eins og ég fæ að heyra frá kollegum mínum hérlendis í fagfélagi okkar músíkmeðferðarfræðinga, sem starfa á ólíkum vettvangi.“

Börn prófa hljóðfærin. Mynd/aðsend.

Ólík og sérhönnuð hljóðfæri

Inga Björk segir að tónlist í einhverri mynd sé líklega hluti af lífi hverrar manneskju og flestir tengi við áhrif hennar, líkamleg eða andleg. „Í músíkmeðferðinni eru eiginleikar tónlistarinnar nýttir á hnitmiðaðan hátt og hún miðuð útfrá aðstæðum og þörfum hvers og eins. Hún styrkir einstaklinginn við að öðlast jafnvægi á hinum ýmsu sviðum og örvar heilbrigða innri krafta hvers og eins. Í Hljómu nýti ég ólík hljóðfæri sem flest eru sérhönnuð til meðferðar og bjóða uppá mjög fjölbreytilegan hljómheim til tónsköpunar og hlustunar. Einnig notum við mikið röddina, persónulegasta hljóðfærið af öllum,“ segir Inga Björk.