Eins og lesendur okkar taka eflaust eftir er Fjarðarpósturinn kominn með nýtt einkennismerki (lógó). Bæjarblaðið er 35 ára í ár og okkur þyrsti í smá andlitslyftingu. Það fylgir líka einhver kraftur nýju ári.

Hafnfirðingar búa vel að því að fá tvö bæjarblöð inn á heimili sín þar sem ritstjórarnir eru með ólík áhugasvið. Guðni hjá Fjarðarfréttum er hörkuduglegur, þekkir bæinn sinn vel og tekur afbragðsmyndir. Fjarðarpósturinn hefur líka fengið jákvæð viðbrögð við efnistökum sínum síðan bæjarblöðin urðu tvö og við höldum því áfram á sömu braut – á okkar hátt. Við höfum einnig rekið okkur á, fengið gagnrýni og gert okkar besta til að standa okkur betur.

Það eru ekki öll sveitarfélög á landinu svo heppin að hafa hrepps- eða bæjarblöð sem skrá sögu þeirra á hverjum tíma, sýna aðhald, mæta á viðburði og vekja athygli á því góða sem gerist. Mín skoðun er sú að bæjarblöð hafa sjaldan eða aldrei verið mikilvægari en einmitt nú. Það er frá svo mörgu að segja, í nútíð og fortíð, og vert að minna á það sem við eigum sameiginlegt. Bæjarblöð hafa oft persónulegra yfirbragð en stóru blöðin og vefmiðlarnir.

Hafnarfjörður þyrfti í raun að hafa eitt íþrótta- og/eða tómstundablað (eða –vef) því það er meira en að segja það að fjalla um allt það góða starf sem er í gangi þar, sérstaklega þegar báðir ritstjórarnir eru einnig einu blaðamenn bæjarblaðanna.

Menntun á öllum stigum blómstrar í bænum okkar, sem og listir, þjónusta og menning. Eldri borgararnir sem muna bæinn eins og hann var, og eiga ógrynni af dýrmætum myndum, eru smám saman að hverfa frá okkur og það er mikilvægt að hlusta á þá af athygli.

Til þess að hægt sé að reka tvö öflug bæjarblöð í þriðja stærsta sveitarfélagi á landinu þarf aukna meðvitund bæjaryfirvalda, fyrirtækja og annarra rekstraraðila til að styrkja þau með auglýsingum. Það er hægt að gera stórkostlega hluti með aukinni samvinnu og góðum ábendingum frá bæjarbúum.

Áfram Hafnarfjörður!

Olga Björt Þórðarsóttir, ritstjóri.