Fyrir fjórum árum urðu kaflaskil við stjórn Hafnarfjarðarbæjar, þar sem við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hlutum frá kjósendum brautargengi sem leiddi til myndunar á nýjum meirihluta með samstarfsflokki okkar. Þar hófst uppbyggingarstarf sem tekið hefur verið eftir og felur í sér enn frekari tækifæri til umbóta í fjármálum bæjarfélagsins og þjónustu við íbúa og fyrirtæki. Með farsælu samstarfi við bæjarstjóra, sem ráðinn var til þeirra verkefna sem lágu fyrir við upphaf kjörtímabilsins, og starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar, hefur tekist að snúa rekstri bæjarins til betri vegar, bæta fjárhagsstöðu hans og leysa Hafnarfjarðarbæ úr áralangri gæslu eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Jafnframt því sem rekstur bæjarins var tekinn til gagngerrar endurskoðunar var horft til þess að þjónusta við íbúa og fyrirtæki yrði ekki minnkuð, heldur aukin og bætt eftir því sem kostur væri. Allt hefur þetta gengið eftir.

Reynsla og traust

Sem bæjarfulltrúi og starfandi í bæjarráði hef ég átt þess kost að taka virkan þátt í þessum umbótum og setja mark mitt á þær. Það er ekki alltaf auðvelt að ná fram breytingum í samstarfi eða að freista þess að ná niðurstöðu í hópi þar sem skiptar skoðanir geta verið um markmið og leiðir, eins og gjarnan er um störf í bæjarstjórn. Þá reynir á að hafa skýra sýn á markmið okkar og stefnumál, ásamt þeirri reynslu og færni sem þarf til að koma málum í höfn.

Víðtækur stuðningur í 2. sæti

Fyrir fjórum árum hlaut ég víðtækan stuðning til að skipa 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins til bæjarstjórnarkosninga í Hafnarfirði. Við höfum borið gæfu til að eiga öfluga og samhenta forystu í bæjarstjórn, sem lagt getur grunninn að næstu skrefum í uppbyggingu og sókn til farsældar fyrir okkur öll sem búum og störfum í Hafnarfirði. Ég gef kost á mér og óska eftir stuðningi til að styrkja þann hóp með endurnýjuðu umboði í 2. sæti framboðslista sjálfstæðismanna í prófkjöri okkar laugardaginn 10. mars.

Kristinn Andersen 

Höfundur er verkfræðingur og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði