Hafnarfjarðarbær er heilsueflandi samfélag og hefur til margra ára verið þekktur sem íþróttabærinn. Íþróttalíf blómstrar í bænum og iðkendur eru 15.000 hjá félögum sem eru aðili að ÍBH sem gerir þau að stærstu samtökum Hafnarfjarðar. Íþrótta- og tómstundastyrkir til barna og ungmenna hækkuðu um 25% í janúar síðastliðnum og ná nú líka t.d. til tónlistarnáms. Þessi styrkur er mikilvægur til að gera sem flestum ungmennum kleift að stunda íþróttir og tómstundir. Frístundabíllinn hóf göngu sína að nýju síðasta haust og hafa 300 börn á aldrinum 6-7 ára nýtt sér þá þjónustu. Í haust verður sú þjónusta einnig í boði fyrir 8-9 ára börn.

Frístundabíllinn hefur jákvæð áhrif á fjölskyldur í bænum þar sem minna verður um skutl og börn geta farið á æfingar fyrr á daginn. Þannig erum við að stytta vinnudag barna og auka gæða stundir fjölskyldunnar. Við höfum staðið okkur vel í því á síðustu árum að auka styrki til íþróttafélaganna og búið er að gera ráð fyrir fjármunum til frekari uppbyggingar íþróttamannvirkja hjá bænum á þessu ári. Styrkir til hafnfirsks afreksíþróttafólks hafa einnig aukist á tímabilinu og er ekki vanþörf á því þar sem 430 einstaklingar urðu íslandsmeistarar árið 2017, 23 bæði lið og einstaklingar urðu bikarmeistarar, átta urðu norðurlandameistarar og einn heimsmeistari. Gott má alltaf gera betur og við munum halda áfram að styðja vel við íþróttafélögin í Hafnarfirði – öllum til heilla. Áfram Hafnarfjörður!

Guðbjörg Oddný Jónasdóttir, varaformaður ÍTH, 6. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins.