Félag eldri borgara í Hafnarfirði fagnar 50 ára afmæli sínu  þann 26.mars n.k. og er því elsta félag á landinu sem tileinkað hefur starfsemi sína þeim sem eldri eru. Að því tilefni er kynnt nýtt félagsmerki með dagskránni í ár.

Við stofnun fékk félagið nafnið Styrktarfélag aldraðra og var m.a. með að markmiði að efla velferð og tómstundir eldri borgara í bænum.  Þegar það síðan hélt aðalfund á sínu 24. aldursári  þann 12. mars árið 1992 höfðu félög með sömu áherslur verið stofnuð víðs vegar um land og landsamband um þau litið dagsins ljós. Fundurinn samþykkti að ganga til liðs við landsambandið, gera nafnabreytingu á félaginu í Félag eldri borgara í Hafnarfirði og lagabreytingu í kjölfarið.

Einstaklega gott samstarf  hefur alla tíð ríkt á milli félagsins og bæjarstjórnar. Skilningur og velvild hefur skilað markmiðum stofnenda með aukinni hagsæld fyrir íbúa bæjarins sem tilheyra aldurshópnum.

Þá hefur Hafnarfjarðarbær séð um allan rekstur, mannahald og húsaleigu á félagsmiðstöðvunum Hraunseli, Hjallabraut 33 og að Sólvangsvegi 1. Sá stuðningur hefur skipt sköpum fyrir félagsstarfið.

Sameiginleg áhersla þeirra sem að starfinu koma eru lífsgæði aldurshópsins.

Það eru stoltir félagar sem  kynna glæsilega dagskrá fyrir komandi starfsár. Hver félagsmiðstöð er kynnt sérstaklega hér í blaðinu og vakin er athygli á fjölbreyttari dagskrá að Hjallabraut 33 og kemur það til vegna rýmri aðstöðu þar, en áður.

Nefndir innan félagsins eru 12. Þar starfar hátt í hundrað manns að því að auðga lífið með dansi, göngum, lestri, spili, sundi, söng og annari huglægri og líkamlegri næringu. Hugmyndaauðgi er þar í fyrirrúmi.

Starfsfólki og félagsmönnum vil ég þakka gott samstarf og það óeigingjarna og ómetanlega  framlag þeirra til að gera öflugt félagsstarf enn betra.

Ég hvet alla þá sem hafa tækifæri til að koma í félagsmiðstöðvarnar og/eða hafa samband til að sjá hvort þeir finni sér ekki eitthvað við hæfi.

Gleðjumst saman yfir framtaki framsýnna forystumanna, njótum fjölbreytileikans í tómstundum og fögnum á komandi vori 50 ára afmæli hagsmunagæslu eldri borgara í bænum.

 

Sjáumst, með bestu kveðju,

Valgerður Sigurðardóttir
formaður FEBH.