Eftir að Margrét Sævarsdóttir lauk fæðingarorlofi sl. haust gafst hún upp á að tilkynna sig sem heima með veikt barn á nýjum vinnustað og ákvað að bjóða upp á leirnámskeið fyrir krakka. Margrét er grunnskólakennari að mennt og reynsla hennar sem myndlistarkennari sýnir að leir er langvinsælastur meðal krakka.

 

„Ég er vel rúmlega búin í fæðingarorlofi og þá er til siðs að fara að vinna aftur. Litla stelpan mín er gjörn á að næla sér í allar umgangspestir og í stað þess að mæta stopult ákvað ég að bjóða upp á þetta leirnámskeið. Ég hef verið svo heppin að komast aðeins í myndlistarkennslu sl. 15 ár og ekkert barn virðist vilja missa af því að geta fært mömmu og pabba fallegan leirhlut. Það er líka þannig að foreldrum finnst þetta oftast mestu djásn heimilisins og það er mjög gefandi tilhugsun fyrir krakkana,“ segir Margrét.

 

Fjögur skipti og allt innifalið í verði

Á námskeiðunum, sem eru fjögur skipti, styðst Margrét við nokkrar grunnaðferðir í leirlist, fer í þær með krökkunum og svo gera þau verkefni sem tengjast þessum aðferðum. „Ég hef bara hreinlega ekki ennþá hitt það barn sem er áhugalítið um þessa vinnu og við gerum leirhluti í fyrstu þrem tímunum og í fjórða og síðasta tímanum er ég búin að hrábrenna og þau mála þá hlutina sem fara að lokum í glerungsbrennslu.“ Námskeiðin byrjuðu í október og þau verða einu sinni í viku frá kl. 16:30-18:00 og kostar 12 þúsund fyrir 5-8 ára og 15 þúsund fyrir 9-12 ára. Allt efni er innifalið.

 

Einnig ætlar Margrét að bjóða upp á námskeið fyrir fullorðna 15.-29. nóvember, þrjú skipti. Námskeiðsgjald verður 14.000 og innifalið í námskeiðsgjöldum er leir, glerungar og brennslur. Námskeiðin fara fram á Rauðhellu 1, 221 Hafnarfirði. Skráning í gegn um Facebooksíðuna Leirlistanámskeið Margrétar eða í síma 6994001 eða margret2206@gmail.com.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Myndir af Margréti og krökkum: Olga Björt.

Myndir af munum: Margrét.