Í tilefni af umræðu um samskipti bæjarfulltrúa og íþróttafélaga er undirrituðum ljúft og skylt að fara yfir breytingar sem við höfum undirrituð unnið að á þeim vettvangi á kjörtímabilinu. Fyrst er að nefna óháða úttekt á fjárhagslegum samskiptum íþróttafélaganna við bæinn. Sú skýrsla varð grunnur að gagngerri endurskoðun á bæði rekstrar- og þjónustusamningum við öll hlutaðeigandi íþróttafélög í Hafnarfirði.
Nýju samningarnir byggja á rauntölum úr rekstri og þjónustusamningar á haldbærum gögnum.

Samstarf við ÍBH hefur verið eflt, um leið og beint aðgengi einstakra félaga framhjá þeim vettvangi að bæjarstjóra og kjörnum fulltrúum hefur verið takmarkað til muna.
ÍBH samþykkti á síðasta þingi sínu forgangsröðun í nýbyggingum sem bæjarstjórn hefur ekki gert breytingar á, af virðingu við samstafsvettvang félaganna.

Bæjarstjórn breytti stefnu sinni varðandi eignarhald íþróttamannvirkja, héðan eftir er miðað við 100% eign bæjarins, að uppfylltum öllum skilyrðum. Bærinn hefur forræði yfir útboðum og framkvæmdum.
Eftirlitsnefnd um fjárhagsleg samskipti félaganna og bæjarins hefur verið endurvakin, að þessu sinni með óháðum fulltrúum.

Það er og verður okkar áhersla að bæjarfulltrúar eigi ekki að hafa bein afskipti af fjárhagslegum eða öðrum hagsmunum íþróttafélaganna, heldur eigi samningar að vera skýrir og allt uppi á borðum.
Virðingarfyllst, Guðlaug S Kristjánsdóttir og Einar Birkir Einarsson, óháðir bæjarfulltrúar með jafnt pláss fyrir allar tómstundir barna og öll íþróttafélög í hjartanu.