Hafnfirðingarnir Guðmundur Ingi Kristinsson, Flokki fólksins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Viðreisn, voru kjörin á þing um helgina. Framundan eru æsispennandi stjórnarmyndunarviðræður og ekki alveg útilokað enn að þau fái ráðherrastól. Við fengum þau til að svara þremur spurningum eins og staðan er þessa dagana.

  • Hvernig leggjast niðurstöður kosninganna í þig?
  • Hvað hyggstu leggja áherslu á sem þingmaður Hafnfirðinga?
  • Ef þú verður ráðherra, hvaða ráðuneyti heillar mest og hvers vegna?

 

Guðmundur Ingi:

  • Þær leggjast mjög vel í mig og ég er innilega þakklátur fyrir þann stuðning og traust sem mínir stuðningsmenn sýndu mér í kosningunum.
  • Það er að hækka persónuafsláttinn þannig að allir hafi að lágmarki 300 þúsund krónur útborgað og gera grunnheilbrigðisþjónustuna gjaldfrjálsa. Einnig að koma vöxtum í sömu tölu og er á hinum norðurlöndunum, með því að taka verðtrygginguna af húsnæðislánum. Þá verður einnig að fara strax í að gera mislæg gatnamót við Lækjagötu, Reykjanesbraut og klára að tvöfalda Reykjanesbrautina og koma öðrum gatnamótum á Reykjanesbraut í lag. Einnig að efla löggæslu.
  • Velferðarráðaneytið, til að koma málefnum öryrkja, eldriborgara og láglaunafólks í lag og lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

 

Þorgerður Katrín:

  • Niðurstaðan fyrir Viðreisn er alveg með ágætum, ekki síst þegar haft er í huga að frjálslyndi á greinilega undir högg að sækja og við vorum ekki með neinn mann inn á þingi fyrir 2 vikum eða svo.  Það er mikilvægt að rödd okkar heyrist á Alþingi, fyrir Hafnfirðinga, neytendur og frjálslynt fólk.
  • Við leggjum áherslu á stóru málin sem eru öllum til hagsbóta, þ.e. lækka vexti, húsnæðismálin, jafnrétti og aukið frelsi neytenda. Að auki verður lögð áhersla á fjölgun hjúkrunarrýma og samgöngumál Hafnfirðinga.
  • Það eru mörg ráðuneyti sem heilla enda bæði krefjandi og skemmtilegt að gegna stöðu ráðherra. Að sitja í ríkisstjórn liggur tækifæri til að gera betur sem þarf að nýta – og hafa kjarkinn til að gera það. Ég hef haft reynslu af bæði mennta- og menningarráðuneytinu sem ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðar og hafa þau bæði veitt mér ómælda ánægju.