Gunnar Axel Axelsson var á dögunum staddur í Palestínu á vegum samtakanna International Solidarity Movement (ISM). Tilgangur ferðarinnar var að starfa með mannréttindasamtökum í svokölluðu samstöðustarfi. Dæmi um verkefni í starfinu er að fylgja skólabörnum til og frá skóla og nærvera við ólífutínslu. Gunnar Axel tók sér tíma til þess að segja lesendum frá upplifun sinni sem að sögn hans mun marka hann fyrir lífstíð.

Hópurinn

Hópurinn

Gunnar Axel sótti fyrirlestur sl. vor á vegum félagsins Ísland-Palestína ásamt vinkonu sinni og vinnufélaga, Falasteen Abu Libdeh. Hún er fædd í Palestínu og fluttist til Íslands fyrir 21 ári, þá 16 ára gömul.

Fyrirlesarinn var Miko Peled, gyðingur fæddur í Ísrael, sonur hershöfðingja í ísraelska hernum. Í fyrirlestrinum rakti hann sögu föður síns eins og hann ritaði hana í dagbækur sínar. Þær söguskýringar stangast í veigamiklum atriðum á við þær sem mestöll umfjöllun um málefnið hefur byggst á undanfarin ár og áratugi. Miko hefur farið um allan heim og haldið fyrirlestra í von um að augu heimsins opnist fyrir því sem raunverulega er að gerast á þessu svæði.

„Hugmyndin að því að fara út og starfa þar með mannréttindasamtökum fæddist í samtali okkar eftir þennan áhrifamikla fyrirlestur. Að lokum varð til sex manna hópur sem fór út, þar á meðal dóttir mín, Sigrún Líf, 19 ára. Félagið Ísland-Palestína studdi vel við bakið á okkur og var okkur innan handar með samskipti úti og skipulagningu.

Með gervifætur í farteskinu

Óskað var eftir því að við tækjum með okkur sendingu af gervifótum sem ætlaðir eru til nota á Gaza-svæðinu. Þetta er liður í verkefni sem Össur Kristinsson stoðtækjafræðingur hefur stutt dyggilega við undanfarin ár í samstarfi við félagið Ísland-Palestína. Við fórum með fjórar fullar ferðatöskur af efni til samsetningar gervifóta og komumst klakklaust með þær á leiðarenda til samtaka á vegum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Það var alls ekki sjálfgefið og það var taugatrekktur hópur sem fór í gegnum eftirlitið á Ben Gurion-flugvellinum þar sem við áttum eiginlega frekar von á því að lenda í ströngum yfirheyrslum og að farangurinn yrði gerður upptækur líkt og áður hefur gerst.

Samstöðustarf

Samtökin, sem við störfuðum með (ISM), eru stofnuð af Palestínumönnum og þeir eru leiðandi í öllu starfi. Inntakið í verkefnum þeirra er ekki hjálparstarf heldur eitthvað sem frekar mætti kalla samstöðustarf.

Eitt af verkefnunum felst í því að fylgja skólabörnum til og frá skóla og fylgjast með þegar þau fara í gegnum vegatálma ísraelska hersins. Þetta hljómar eflaust einkennilega í hugum margra en staðreyndin er sú að palestínsk börn verða fyrir stöðugu áreiti og ofbeldi af hendi ísraelskra hermanna og landtökufólks. Nærvera alþjóðlegra sjálfboðaliða virðist vera eitt af því fáa sem dregur úr líkum á eða kemur í veg fyrir að slíkt eigi sér stað. Allt starf samtakanna er á friðsamlegum nótum, þ.e. allar aðgerðir þeirra eru lausar við ofbeldi.  Einu vopnin, sem þátttakendur í starfi þeirra hafa, eru pennar og myndavélar.

Aðstoð við ólívutínslu

Gunnar uppi í ólívutré að aðstoða við tínsluna.

Gunnar uppi í ólívutré að aðstoða við tínsluna.

Við fórum út í byrjun október vegna þess að þá hefst ólífuuppskeran í Palestínu. Á hverju ári undanfarin ár hafa samtökin sent út ákall og beðið fólk um að koma og standa með bændum sem annaðhvort er meinað að uppskera á landi sínu eða verða fyrir ofbeldi af hálfu landtökufólks og hermanna í tengslum við uppskeruna.

Ólífurækt er mjög umfangsmikil í Palestínu og skipar stóran sess í hugum fólksins sem þar býr. Því er stundum sagt að ólífutréð sé annað og meira en bara tré í hugum fólksins þar, miklu nær því að vera lifandi tákn, hluti af sjálfsmynd þjóðarinnar. Baráttan fyrir réttinum til að uppskera er þannig samofin baráttu fólksins fyrir mannréttindum sínum og þannig táknræn í ákveðnum skilningi. Ólífurækt er sömuleiðis mikilvæg stoð í efnahag landsins og afkomu fólksins. Réttur þess til þess að sinna uppskerunni á þeim svæðum, sem ekki hafa nú þegar verið tekin undir ólöglegar landtökubyggðir Ísraela, eru hins vegar í mörgum tilvikum takmarkaður við útgáfu sérstakra leyfa frá ísraelskum yfirvöldum. Og víða hefur landtökufólkið beitt svo mikilli hörku gagnvart réttmætum eigendum þessara ólífuakra að þeir hafa gefist upp. Um leið og það gerist segja ísraelsk yfirvöld að svæðin séu vannýtt landbúnaðarsvæði og úthluta þeim til frekari stækkunar landtökubyggðanna.

Það eina sem virðist virka í baráttunni gegn þessu er alþjóðleg nærvera. Eftir tveggja daga þjálfun í borginni Ramallah fórum við með bændum og fjölskyldum þeirra á lönd þeirra og dvöldum með þeim þar frá morgni til kvölds. Þó svo að ekki væri ætlast til þess að við tækjum þátt í sjálfri tínslunni þá fannst okkur ekki annað koma til greina fyrst við vorum þarna á annað borð. Við unnum því bara hlið við hlið með bændunum og fjölskyldum þeirra, nutum samverunnar með þeim og hlustuðum á sögur þeirra.

Við eyddum tveimur dögum með fjölskyldu sem hafði lent í árás deginum áður og treysti sér ekki til að snúa aftur út á akurinn án nærveru alþjóðlegra sjálfboðaliða. Það var  ánægjuleg reynsla að starfa við hlið hennar og augljóst að nærvera okkar skipti máli.

Þegar fjölskyldufaðirinn mætti á lögreglustöðina til að kæra árásina sem fólkið varð fyrir lenti hann sjálfur í yfirheyrslu. Spurningum var beint að honum: „Hvers vegna telur þú að þú eigir rétt til að uppskera á þessu landi? Hvernig eignaðist þú það? Hvenær?“ o. s. frv. Það skal tekið fram að þessi fjölskylda hefur átt þetta land og hlúð að því langt aftur í ættir.  Landtökumaðurinn, sem var að reyna að hrekja hana í burtu, hafði hins vegar sett niður hús sitt í miðju landi hennar fyrir nokkrum árum. Frá því að það gerðist hefur hún ekki treyst sér til þess að sinna landinu án þess að hafa með sér fylgd.

Aukin uppgjöf

Amman og afinn í Jamma’in

Amman og afinn í Jamma’in

Í bænum Qariyut voru svipaðar aðstæður. Fólkið, sem við störfuðum með, varð fyrir árás. Landtökufólk eyðilagði einn bíl  þess en undanfarið hafa verið kveikt í trjám þess og reynt að eyðileggja fyrir því uppskeruna og framtíðarmöguleika til að nýta landið. Trén þar eru flest mjög gömul, svokölluð rómartré. Stofninn er þykkur sem gefur vísbendingu um aldurinn  sem getur verið yfir tvö þúsund ár. Ummerki eftir skemmdarverk síðustu ára eru áberandi, brunnin þúsund ára gömul tré.

Við einn akurinn þar hafði sprottið ný landtökubyggð.  Þar hefur eigandinn gefist upp fyrir landtökufólkinu sem hefur hótað því að hann og fjölskylda hans verði skotin ef þau koma til að vitja trjánna. Þau þora það jafnvel ekki þó þau hafi sjálfboðaliða með sér. Og þannig gengur landtakan fyrir sig. Hægt og rólega gefst fólkið upp og ólífuakrarnir víkja fyrir landtökubyggðinni. Og því miður merkir maður ákveðna uppgjöf hjá fólkinu.

Engin réttindi

Við komuna til Huwara hittum við líka Assam, 26 ára Palestínumann frá Burin. Hann var látinn laus úr fangelsi fyrir tveimur vikum eftir 26 mánuði bak við lás og slá. Ástæðan fyrir handtökunni var þátttaka í starfi samtakanna sem við erum meðlimir í  (ISM) en hann hafði komið að skipulagningu á móttöku sjálfboðaliða í tengslum við ólífuuppskeruna. Þetta var í þriðja sinn sem hann var fangelsaður. Eftir rúmlega tveggja ára fangelsisvist var hann samt mættur til að aðstoða okkur og tryggja að okkur liði vel þar sem við bjuggum dagana sem við dvöldum í Huwara.  Saga Assams er svo langt í frá einsdæmi. Andspyrna Palestínumanna er markvisst barin niður af ísraelskum yfirvöldum og ungir karlmenn teknir úr umferð. Samkvæmt ísraelskum lögum má t.a.m. hneppa fólk í varðhald í allt að sex mánuði án dóms og laga. Það er kallað „Administrative detention“ og felur m.a. í sér að viðkomandi nýtur í raun engra réttinda til þess að verja sig. Lögmenn fá ekki aðgang að gögnum þeirra sem eru handteknir á grundvelli þessara laga þar sem þau eru skilgreind sem leynileg og sögð tengjast þjóðaröryggi. Eftir sex mánuði er gjarnan aftur framlengt um sex mánuði og þannig situr fólk inni jafnvel svo árum skiptir án þess að upplýst sé um tilurð handtökunnar.

Fyrir og eftir Palestínu

Þetta ferðalag var upplifun sem mun setja mark sitt á okkur öll sem fórum saman. Vinkona mín orðaði það þannig að núna myndi allt miðast við „fyrir og eftir Palestínu“ og ég held að það sé ágætlega að orði komist. Viðmiðin hafa breyst, samhengi hlutanna orðið skýrara. Þannig breytir reynslan manni, yfirleitt til góðs. En það var líka skrítið að yfirgefa Palestínu. Þörfin fyrir nærveru alþjóðasamfélagsins er æpandi hvert sem litið er. Ástandið virðist líka á hraðri leið með að normalíserast á sumum sviðum. Nýjar kynslóðir, sem þekkja ekkert annað en lífið í hernumdu landi, þekkja ekki annað en kúgunina sem í því felst. Börn mæta þungvopnuðum hermönnum og alls kyns niðurlægingu og andlegu og líkamlegu ofbeldi á hverjum einasta degi. Kynslóðir alast upp við það að njóta ekki ferðafrelsis, að geta ekki séð sjóinn eins og jafnaldrar þeirra sem búa handan aðskilnaðarmúrsins. Fólk fæðist inn í aðstæður sem enginn ætti að þurfa að upplifa og hvað þá sætta sig við.

Í mínum huga er ferðin sjálf og það sem við vorum að gera í Palestínu líka í raun bara byrjunin því að hlutverk okkar sem sjálfboðaliða er ekki síst að miðla áfram því sem upplifðum. Að segja frá raunverulegum aðstæðum þeirra sem þarna búa. Ekki þeirri mynd sem markvisst er dregin upp í fjölmiðlum Vesturlanda þar sem því er gjarnan stillt þannig upp að þarna séu tvær þjóðir í stríði. Það er svo langt frá þeim veruleika sem þarna blasir við. Hernaðarmáttur Palestínumanna er í reynd enginn þegar hann er settur í samhengi við það sem Ísrael býr yfir og geta þeirra til mótspyrnu ekki raunveruleg. Það sem er verra er að alþjóðasamfélagið virðir ekki rétt þeirra til þess að veita mótspyrnu, jafnvel þó svo að hún sé framkvæmd með friðsamlegum hætti. Þetta segi ég vegna þess að alþjóðasamfélagið lætur og hefur í raun alltaf mætt framferði ísraelskra stjórnvalda með afskiptaleysi.

Við getum ferðast til Palestínu og tekið þátt í baráttu Palestínufólks með beinum hætti, staðið við hlið þess og sýnt málstað þess samstöðu. Það er það sem við ákváðum að gera.“