Einn af eftirlætissonum Hafnarfjarðar er án efa stórsöngvarinn og tónlistarmaðurinn Björgvin Halldórsson. Desember er einn annasamasti mánuður ársins hjá honum og stór hluti ársins fer í það að undirbúa jólin. Hann er einn af þeim sem hafa alltaf mörg járn í eldinum en þann 12. nóvember sl. var opnuð sýning í Rokksafni Íslands um Björgvin og feril hans. Fjarðarpósturinn settist niður með Björgvini yfir kaffibolla og fékk m. a. að heyra um söfnunaráráttu sem hann segist hafa í blóðinu.

„Ég er haldinn þessu söfnunargeni. Elsti bróðir minn, Baldvin Halldórsson, er einn af þessum aðalsöfnurum landsins. Serious safnari. Þetta er eitthvað í blóðinu.
Móðir mín var að klippa út úr blöðum þegar ég var að byrja í kringum 1968–69. Svo hélt ég þessu áfram, ekki bara fréttir af mér heldur líka af samstarfsmönnum mínum. Það sem ég var að gera með öðrum. Ég klippti ekki út bara greinarnar um sjálfan mig heldur tók ég alla síðuna. Þorskastríðið hinum megin. Það er gaman að setja hlutina í samhengi við söguna, hvað var að gerast í heiminum á þessum árum.“
Björgvin segist hafa byrjað mjög snemma á að safna gítörum, fatnaði, skyrtum og höttum. „Þetta er náttúrlega bara bilun. Ég er með bílskúr heima og enginn bíll hefur farið þar inn. Svo er ég með skrifstofuna mína og stúdíóið mitt og geymslur.com fullar af dóti. Svo var það þannig að Thomas Young, sem rekur Rokksafn Íslands og Hljómahöllina, hefur samband við mig og biður mig um að taka við af sýningunni hans Páls Óskars. Ég tók mér smávegis umhugsunarfrest og svo rann það upp fyrir mér. Jahá. Þess vegna var ég að safna öllu þessu dóti,“ segir Björgvin en þann 12. nóvember sl. var sýning um hann og feril hans opnuð í safninu.
„Þarna er karaoke-klefi þar sem þú getur sungið með mér, mixer þar sem hægt er að mixa lögin aftur, 40 iPad-ar með myndefni og myndböndum, fatnaður, heljarinnar gítarsafn frá mér og you name it. Þetta er einnig fræðslu- og menningarsetur. Sögu íslenskar dægurtónlistar frá 1930 til dagsins í dag er þarna að sjá. Alveg hrikalega flott og virðingarvert af Reykjanesbæ þegar verið að loka söfnum úti um allt.“

Afkastamikill
Björgvin er með afkastamestu listamönnum landsins og þó víðar væri leitað. Sem þessi safnari sem hann er lék okkur forvitni á að vita hvort hægt væri að telja þau lög sem hann hefur hljóðritað.
„Við tókum það saman um daginn og fundum út að líklega er ég búinn að hljóðrita einn míns liðs og með öðrum nærri níu hundruð lög. Ég stefni á þúsund. Ég er rétt að byrja. Síðast þegar við töldum allar plöturnar, — og ég á eintök af þeim öllum, endurútgáfum og safnplötum o. fl., — þá voru þær um 350 talsins.“

Jólalög
Það má vart kveikja á útvarpinu í desember án þess að heyra í Björgvini og hann segist hafa hljóðritað gífurlegan fjölda jólalaga. „Ég veit eiginlega ekki af hverju það er nákvæmlega. Kannski af því að ég er svona mikill jólasveinn. Tónleikarnir Jólagestir byggjast á þessum plötum sem ég gaf út og heita Jólagestir en þær urðu fjórar talsins. Síðan hef ég sungið jólalög á öðrum plötum, t. d. mikið með Hljómum hér áður fyrr, Gleðileg jól og þessar plötur sem margir muna eftir.“

Jólagestir
Þann 10. desember nk. verða hinir árlegu stórtónleikar Jólagestir Björgvins haldnir í Laugardalshöll í tíunda sinn. Undirbúningur fyrir slíka veislu stendur yfir nánast allt árið og er í mörg horn að líta. Þetta er fullt starf nokkra mánuði ársins. Björgvin hefur fengið til liðs við sig hina ýmsu tónlistarmenn og söngvara í gegnum tíðina og undanfarin ár hafa erlendar stjörnur einnig léð honum krafta sína. Þar má nefna Alexander Ryback, Paul Potts og hana Amiru litlu, 11 ára stúlku frá Hollandi sem vann Holland´s got talent.
„Í ár verður með okkur Thorstein Einarsson, ungur strákur, sonur Einars Thorsteinssonar söngvara í Austurríki. Hann er búinn að slá í gegn í Þýskalandi og Austurríki. Hann vann talent-keppnir þar og er á samningi hjá Sony. Við ákváðum að þessu sinni að ná í Íslending að utan. Svo verður náttúrlega karlakór frá Hafnarfirði, Þrestirnir, elsti karlakór á Íslandi. Svo verða náttúrlega Hafnfirðingarnir Friðrik Dór og Jóhanna Guðrún, Svala dóttir mín og Ragga Gísla, Eyþór Ingi og Gissur tenór. Algjörar fallbyssur. Ég hef stundum sagt að ég sé á kústinum. Ég helli upp á kaffi og svona enda eru þetta jólagestir, ég er gestgjafinn þó svo að ég fái nú að syngja nokkur lög. Svo er það náttúrlega jólastjarnan, sigurvegarinn úr sjónvarpsþættinum sem var að ljúka syngur með okkur. Í ár vann Guðrún Lilja Dagbjartsdóttir, frábær níu ára stúlka frá Grindavík.“

Hvernig kviknaði hugmyndin að Jólagestum?
„Eftir að ég hélt tónleikana með Sinfóníuhljómsveit Íslands hér um árið og við fylltum fjórar Laugardalshallir þá vildum við endilega gera eitthvað svona stórt aftur. Þá komu jólagestirnir til sögunnar. Þetta er búið að vera æðislega gaman. Þetta er tíunda árið núna í Laugardalshöllinni. Svo núna strax eftir áramótin setjumst við niður og förum yfir hvað megi betur fara og slíkt. Þetta er orðið svo gífurlega stórt að við erum í raun allt árið að vinna í þessu. Við erum með strengjasveit, karlakór, gospelkór, barnakór, tíu söngvara, stóra hljómsveit þannig að það er í mörg horn að líta. Þetta er því fullt starf nokkra mánuði ársins.“

Í bíó fyrir sex krónur
Björgvin ólst upp í Bæjarbíói á þriðja bekk fjögur eins og hann orðar það. „Fyrst var farið í KFUM klukkan þrjú og við fengum Jesúmyndir. Svo var skipt á einum Júdasi fyrir þrjá Jesúa. Svo beint í bíó fyrir sex krónur og svo seldi maður hasarblöð í hléinu til þess að eiga tvær krónur fyrir nammi. Við vorum náttúrlega með tvö bíó hér, Hafnarfjarðarbíó sem var æðislega flott, svona lítið Gamla bíó, með svölum og stúku og svona. Við svindluðum okkur alltaf þar inn í gamla daga. Svo fórum við inn um klósettgluggann á bak við á fjöru. Níels, sem átti bíóið, vissi nú alveg af þessu. Þegar allir voru sestir og myndin byrjuð laumuðum við okkur inn,“ rifjar Björgvin upp dreyminn á svip.

Litlu jólin
Fyrir þremur árum byrjaði Björgvin á því að halda litlu jólin á Þorláksmessu í Bæjarbíói, litla og notalega tónleika á persónulegu nótunum. „Það rann upp fyrir mér að ég hafði aldrei haldið tónleika í mínum heimabæ og er ég þó líklega alræmdasti Hafnfirðingurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Ég tala mikið um Hafnarfjörð og er mjög stoltur af því að vera Hafnfirðingur. Ég fæddist heima hjá mér og allt þannig að ég hugsaði með mér: Hvernig væri að hafa tónleika á Þorláksmessu, daginn fyrir Jesú? Og bara klukkan tíu þegar flestir eru búnir að öllu, hangikjötið komið yfir og allt klárt? Nú er þetta í þriðja skiptið sem við höldum þessa tónleika og þetta hefur verið æðislegt.“
Einir tónleikar eru haldnir og engir aukatónleikar og þess vegna hvetur Björgvin fólk til þess að hafa hraðar hendur. „Það er sjarminn við þetta. Einir tónleikar á Þorláksmessu í Bæjarbíói.“
Í fyrra var bryddað upp á nýjung og verður aftur í ár. „Hann Jón Örn og fyrirtæki hans, Kjötkompaní, sem er ein vinsælasta sælkeraverslunin á höfuðborgarsvæðinu, býður gestum að kostnaðarlausu upp á dýrindisjólahlaðborð. Þá er ég ekki að tala um Ritz-kex með osti. Ég er að tala um gæs, naut, svín og allan pakkann. Við opnum húsið klukkan níu. Kokkar taka á móti fólkinu og gefa svo aftur að borða í hléinu. Svo endum við þetta á Heims um ból eða einhverju slíku og kveðjum fólkið. Og allir heim í jólagír.“
Björgvin segir Bæjarbíó vera alveg sérstakt og það verði að varðveita það. „Nú eru að koma nýir aðilar til að taka við og þeir eru mjög metnaðarfullir og ætla að taka þetta aðeins í gegn. Ég bind miklar vonir við að það heppnist vel og það verði meira að gerast í bíóinu. Það er svo gott að vera hérna í bænum. Það er allt hérna.“

Jólin hans Björgvins
„Ég er algjör jólasveinn, sko. Ég er í þannig vinnu að ég er alltaf að yfir hátíðirnar. Þorláksmessan er í raun bara farin frá mér. Undanfarin fjögur ár hef ég haldið litla tónleika í Hamborgarafabrikkunni í hádeginu. Simmi og Jói hafa haldið litla tónleikaröð í desember. Svo fer ég í Bæjarbíó og stilli upp og slíkt. Hér áður fyrr fórum við alltaf niður í bæ og fórum á Jómfrúna á Þorláksmessu með fjölskyldu og vinum. En nú er það bara ekki hægt lengur. Jólin fyrir mér eru þó frekar afslöppuð. Ég horfi mikið á bíómyndir og les.“
Björgvin heldur jólin heima hjá sér og fær fjölskylduna til sín. Hann segist vera mikill matmaður en hefur breytt matarvenjum sínum um jólin. „Ég veit reyndar ekki hvort Svala dóttir mín verður hér núna en hún býr í Los Angeles og hefur gert í sjö ár. Hún er reyndar eitthvað heima í desember að dæma í The Voice og að syngja á tónleikunum mínum. En Krummi, sem er nýkominn heim frá því að spila um alla Evrópu ásamt hljómsveitinni sinni, og kærastan hans, Linnea Hellström, verða hjá okkur og þau eru bæði vegan. Síðustu jól okkar voru vegan-jól. Ég er svo mikill matarkall og ég man eftir því að grænmetisfæðið í gamla daga var bara tómatsneið, agúrka og salatblað. Það var ekkert varið í þetta. Þessir réttir voru bara vondir. En í dag er þetta alveg æðislega gott.“
Linnea, kærasta Krumma, er meistarakokkur í vegan og vinnur sem slíkur og fyrir fyrirtæki í þeim bransa í Svíþjóð. „Linnea býr til æðislegan mat sem er gerður úr hráefni sem kemur á engan hátt frá dýraríkinu. Ég gæti alveg verið með nautalundina á kantinum í bílskúrnum en maður kann nú ekki við það. Þetta skiptir mig bara engu máli. Þetta eru jólin og fjölskyldan er saman. Ég get bara fengið mér eitthvað heavy duty daginn eftir ef því er að skipta,“ segir Björgvin að lokum og fer að undirbúa sig fyrir annasaman mánuð fram undan.