Hrafnhildur við styttuna af Jesú í Ríó

Hrafnhildur við styttuna af Jesú í Ríó

Afrek hafnfirsku sundkonunnar, Hrafnhildar Lúthersdóttur, hafa líklega ekki farið fram hjá neinum. Hún hefur vakið athygli fyrir vasklega frammistöðu á Ólympíuleikunum en ekki síður fyrir geislandi framkomu. Fjarðarpósturinn náði tali af henni í Ríó.

„Þetta ár er búið að vera frábært, verðlaun á EM og úrslit á Ólympíuleikum og HM er náttúrulega bara æðislegt! Þegar ljóst var að ég myndi synda til úrslita í Ríó upplifði ég ákveðinn létti. Ég hafði náð markmiði sem mig hafði dreymt um svo lengi. Ég varð alveg orðlaus á þessu augnabliki – auðvitað hæstánægð en á sama tíma nokkuð róleg. Ég vissi að nú þyrfti ég að einbeita mér,“ sagði hún glöð í bragði.

Hrafnhildur sagði Ólympíuleikana toppa allt annað. „Það sem er svo gaman við þá er að vera með öllum hinum íþróttagreinunum en ekki bara sundi eða vatnaíþróttunum.“

Fjölskylda til fyrirmyndar

Hrafnhildur er dóttir þeirra Ingibjargar Ragnarsdóttur og Lúthers Sigurðssonar. Hún kallar foreldra sína Gaflara, enda bæði fædd og uppalin í Hafnarfirði. „Foreldrar mínir og Auðunn, bróðir minn, eru mínar helstu fyrirmyndir. Þau eru alltaf jákvæð og glöð, og gera allt vel sem þau taka sér fyrir hendur,“ sagði hún.

Fyrstu árin bjó Hrafnihildur í Bandaríkjunum þar sem pabbi hennar var við nám. Þegar þau sneru svo aftur heim gekk Hrafnhildur í Öldutúnskóla og síðar Víðistaðaskóla. Hún er stúdent úr Flensborg.

Vildi alltaf vera best

„Ég byrjaði í öllum öðrum íþróttum áður en ég sneri mér að sundinu. Ég var ekkert svo góð í þeim þannig að ég hætti, ég vildi alltaf vera best. En þegar ég fann svo loksins sundið, 10 ára gömul, þá fann ég strax að ég var á réttri hillu í SH og ég eignaðist svo yndislega vini í sundhópnum að ég gat bara ekki hætt.

Alltaf þegar ég kem heim þá æfi ég með SH. Þar lærði ég að elska sund, ég áttaði mig á hvað vinirnir skipta miklu máli, og að tæknin er jafn mikilvæg ef ekki mikilvægari en bara þol, þol, þol,“ sagði Hrafnhildur þegar hún var spurð um ferilinn með SH.

Öðruvísi æfingar í Flórída

„Æfingarnar heima á Íslandi snerust meira um tækni og að synda rétt en í Flórída er lögð áhersla á þol og að synda eins langt og mikið og maður getur á hverri æfingu. Ég held að hvort tveggja hafi hjálpað mér af því að þá var ég með svo frábæran tæknilegan grunn áður en ég fór út í þolsundið til að byggja upp styrkinn og svoleiðis. Ég held að þetta spili ágætlega saman og hafi orðið til þess að ég varð betri og betri,“ sagði hún hæversklega.

Hrafnhildur lærði almanntengsl í háskólanum úti og útskrifaðist í desember. „Í Flórída er auðvelt tvinna saman nám og sund af því að þar er mikið hugsað um íþróttir. T.d. er manni leyft að taka próf fyrr eða seinna ef upp kemur mót.“

Fær stundum leiða á sundi

Stund milli stríða. Hrafnhildur og Anton Sveinn McKee, hinn frábæri sundmaður úr Hafnarfirði í Rio de Janeiro.

Stund milli stríða. Hrafnhildur og Anton Sveinn McKee, hinn frábæri sundmaður úr Hafnarfirði í Rio de Janeiro.

„Eins og allir bestu sundmenn í heimi þá fæ ég stundum leiða á sundinu. Þetta getur verið svolítið erfitt, sérstaklega þegar ekki gengur eins vel og manni finnst eins og maður sé að missa af miklu með vinum eða eitthvað svoleiðis. En þá er mikilvægt að halda áfram og komast í gegnum það tímabil með hjálp vina, fjölskyldu og jafnvel sálfræðinga og reyna að halda „góðum huga“. Það styrkir mann bara að komast yfir erfiðleikana.“

Hvaða fleiri ráðum skyldi Hrafnhildur luma á fyrir þá sem stefna hátt í íþróttinni? „Í öllum íþróttum er einbeiting, markmið og vilji mikilvægir þættir. Svo er alltaf andleg heilsa mjög mikilvæg. Ég segi alltaf að hausinn sé 80% af íþróttinni en bara 20% séu líkamlegt atgervi.“

Þétt dagskrá

Okkur hjá Fjarðarpóstinum lék forvitni á að sjá dagskrána á „venjulegum“ degi hjá afrekskonunni. Hana má sjá hér til hliðar. En á hún aldrei frí? „Jú, þá reyni ég að gera eitthvað skemmtilegt með vinum eða bara slaka á sjálf og gera ekki neitt, liggja bara heima og horfa á góða mynd eða einhverja þætti.“ Hún sagði jafnframt að stundum væri erfitt að finna tíma fyrir rómantíkina því kærastinn sé ekki sundmaður.

Heimþrá

„Ég kem nokkrum sinnum á ári til Íslands en alls ekki eins oft og ég vil. Ég fæ stundum heimþrá, helst vegna þess að ég sakna vina, fjölskyldu og matarins. Uppáhaldsstaðurinn minn í Hafnarfirði er Norðurbærinn því þar ólst ég upp og á svo margar frábærar minningar þaðan.“

Spennandi tímar framundan

„Ég fæ hamingjuóskir frá fólki sem ég þekki varla og styrktartilboð frá fyrirtækjum og auðvitað líka frábæra Hafnarfjarðabæ!“ sagði hún þegar hún var spurð um áhrifin sem árangur á síðustu mótum hefur haft á ferlinn. „Annars er það besta við sundið að fá að kynnast fullt af fólki, fá að ferðast til framandi landa og að upplifa mismunandi menningu.

Ég á eftir að ákveða mig með allt, hvar ég ætla að búa næst, æfa og hvað ég ætla að gera, hvort ég fái mér vinnu eða hvað. En þetta er allt spennandi og nú hefst nýtt tímabil í lífi mínu.“

Hrafnhildi er þakklæti ofarlega í huga þessa dagana. Hún sagði að lokum: „Takk fyrir allan stuðninginn og allar kveðjurnar, þið eruð æðisleg!“

 

 

Samheldinn hópur. Hluti íslenska Ólympíuhópsins á góðri stund í Ríó.

Samheldinn hópur. Hluti íslenska Ólympíuhópsins á góðri stund í Ríó.

 

Hvernig er venjulegur dagur í lífi afreksíþróttakonu?

Hrafnhildur fyrir sund á ÓL í Ríó

Hrafnhildur fyrir sund á ÓL í Ríó

Lengsti dagur hjá mér samanstendur af tveimur æfingum, morgunæfingu klukkan 8-10 og kvöldæfingu frá 2-4. Svo fer ég í klukkutíma annað hvort að lyfta lóðum eða það sem við köllum “dryland” sem eru þá æfingar á þurru landi eins og magaæfingar, hlaup, upphýfingar og fleira. Svo geri ég aukaæfingar yfirleitt tvisvar í viku sem er jóga. Ég borða 3-4 máltíðir á dag, og nasla inn á milli líka (eins hollt og ég get!). Svo reyni ég yfirleitt að vera komin upp í rúm um 22 leytið og fá 8 tíma svefn.