Hildur Aðalsteinsdóttir er gift tveggja barna móðir sem finnst gaman að hreyfa sig. Hún hefur engan sérstakan grunn í íþróttum og hreyfði sig lítið þar til vorið 2012 þegar hún kynntist fyrst útihlaupum. Fyrstu þrjú árin hljóp hún sjálf en í apríl 2015 skráði hún sig í Skokkhóp Hauka og sér ekki eftir þeirri ákvörðun. Hildur var eini Hafnfirðingurinn sem tók þátt í Heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupi, sem haldið var í síðasta mánuði. Hlaupið var 84 kílómetrar með m.a. var 5000 m hækkun. 331 keppandi tók þátt en 263 náðu að klára innan tímamarka.

Æfingaprógramm Hildar byggist fyrst og fremst á hlaupaæfingum úti. „Mér finnst fátt skemmtilegra en að hlaupa í snjó, vindi og rigningu; í ekta íslensku veðri. Inni á milli æfi ég í Reebok fitness. Þar stunda ég einna helst Tabata og æfingar í heitum sal. Ég reyni að hafa æfingarnar fjölbreyttar sem einblíni helst á styrk og uppbyggingu vöðva með það að markmiði að koma í veg fyrir meiðsli,“ segir Hildur.  Það sem heillar hana mest við hlaup er að það eina sem þarf eru góðir íþróttaskór. „Síðan reimar maður á sig skóna og fer út og á góða stund með sjálfum sér og kemur ég endurnærður til baka að sinna fjölskyldunni.“ Báðir synir Hildar hafa tekið þátt í hlaupum með henni, en þeir æfa fótbolta og hlaupin henta vel með þeirri íþrótt, m.a. til að auka úthald.

Hlaupahópurinn veitir félagsskapinn og hvatninguna

Síðan Hildur byrjaði að æfa með Haukum hafa hlaupin færst út í meiri hraða og lengri utanvegahlaup. „Lengsta hlaupið mitt fram að Heimsmeistaramótinu er Laugavegurinn, en ég tók fyrst þátt árið 2016 og aftur árið 2017. Þegar maður æfir fyrir löng hlaup skiptir máli að æfingatímabilið sé skemmtilegt og þá skiptir sköpum að vera í góðum félagsskap. Slíkt fær maður í hlaupahóp; hvatningu, góðan stuðning og að hafa trú á sér,“ segir Hildur.

Það er sigur út af fyrir sig að klára þetta erfiða hlaup.

Heimsmeistaramótið var haldið þetta árið á Spáni 12. maí sl. í þjóðgarði sem heitir Penyagolosa. „Ég var hvött áfram af vinkonu minni að sækja um inngöngu hjá Frjálsíþróttasambandi Íslands til að vera einn af keppendum fyrir Íslands hönd. Ég var aðeins hikandi fyrst og var ekki viss hvort ég væri nógu góður hlaupari. Vegna smá hlaupahlés var ég lítið búin að hlaupa á árinu þegar ég komst að því þann 22. janúar að ég hafði verið valin,“ segir Hildur, en 8 kepptu fyrir hönd Íslands, 5 konur og 3 karlmenn. Hlaupið koma til með að vera 85 km langt og um 5000 m hækkun. „Ég hafði lengst farið Laugaveginn sem er 53-55 km langur og um 2200 m hækkun. Ég viðurkenni að í byrjun var ég frekar hrædd við vegalengdina en ákvað strax í upphafi að hugsa mikið út í vegalengdina eða hlaupið sjálft heldur einbeita mér að æfingatímabilinu.“

Íslensku þátttakendurnir í ár.

Esjuganga í öllum veðrum

Æfingatímabilið gekk mjög vel og Hildur reyndi að sníða æfingarnar að fjölskyldunni; hljóp einu sinni í viku í vinnuna og tók styrktaræfingar fyrir vinnu. „Ég vinn hjá Reykjavíkurborg, þar sem sett af stað styttri vinnuvika í febrúar. Hildur var til 13 á fimmtudögum til að taka Esjugöngu, í öllum veðrum.  Oftar en ekki var bylur, snjór sem náði upp að kálfum en ég lét það ekki stoppa mig. Ég vissi að ég þyrfti að æfa betur fjallahlaup því ég hef ekki verið sterk upp en ég á frekar auðvelt með niðurhlaup. Markmið mitt frá upphafi var að klára hlaupið innan 15 klukkustunda.“

Hafragrautur, banani og kaffi

Íslensku keppendurnir voru, auk Hildar, Sigurjón Ernir Sturluson, Daníel Reynisson, Guðni Páll Pálsson, Elísabet Margeirsdóttir, Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir og Sigríður Einarsdóttir. Liðsstjóri var Friðleifur Friðleifsson, þjálfari hjá FH. Eftir að hópurinn var kominn til Spánar svaf Hildur illa allar nætur fram að hlaupinu, vegna streitu, tilhlökkunar og kvíða. Morguninn sem hlaupið var fékk hún sér, að venju, hafragraut með rúsínum og mjólk, banana og kaffibolla í morgunmat. „Það var mjög góð stemning í hópnum okkar, eftir smá breytingar og bras tengt skipulagningunni úti, og allir tilbúnir að takast á við áskorunina sem framundan var. Í fyrsta hlaupakaflanum gekk mér vel og ég og Ragnheiður, sem var mér samferða, tókum hvorugar upp göngustafina okkar. Ég fann þó strax fyrir bakverkjum og tók verkjalyf. Ég sá eftir á að það hefði bara verið best að nota göngustafina strax, þeir hlífa aðeins bakinu.“

Komin í mark, alsæl.

„Þú ert búin að sigra í mínum augum“

Á erfiðum köflum í hlaupinu hugsaði Hildur til fjölskyldu sinnar sem hún ætlaði ekki að valda vonbrigðum. „Samt sem áður vissi ég að svo myndi ekki vera því þau eru ótrúlega stolt af mér. Strákurinn minn sagði til dæmis við mig þegar ég var að kveðja hann: ‘Mamma ég er ótrúlega stoltur af þér þó þú náir ekki að klára, þú ert búin að sigra í mínum augum’. Ég vildi samt komast í mark því ég var nú að hlaupa fyrir hönd Íslands,“ segir Hildur.

Undir lokin voru allir hlauparar sem Hildur tók fram úr örmagna og flestir gangandi, en henni leið vel og ætlaði sér að ná í mark. „Þegar það voru um u.þ.b. 500-700 m eftir kallar Friðleifur þjálfari nafnið mitt, en hann hljóp með mér fyrir utan stíg og leiðbeindi mér. Það var síðan ólýsanleg upplifun þegar ég steig á marklínuna og ég sagði statt og stöðugt: ég trúi þessu ekki! Ég kom í mark á 14:59:45, 15 sekúndum frá því að fá ekki hlaupið gilt. Allt er hægt ef maður trúir á sjálfan sig, trúin hefur fleytt mér áfram í lífinu!“ – segir Hildur alsæl að lokum.