Árleg andasundkeppni á vorhátíð Setbergsskóla fór fram í hluta Hamarskotslækjar um liðna helgi. 150 plastöndum var sleppt í lækinn, 56 öndum fleiri en í fyrra, og svo hófst æsispennandi keppni um hvaða önd kæmist fyrst á leiðarenda. Nemendur og foreldrar þeirra stóðu á bakkanum og hvöttu sína önd, en sigurvegari í ár var önd númer 5 og tveir nemendur veðjuðu á hana. 

Sif Stefánsdóttir, skólastjóri Setbergsskóla kom með þessa hugmynd frá Skotlandi og sem vel er tekið ár hvert. Áshildur Hlín Valtýsdóttir og Vala Steinsdóttir eru í stjórn foreldrafélagsins og þær tóku að sér hlutverk andarekara. Kristín Thoroddsen var andalýsari og stóð sig víst með sóma. Nemendur völdu sér önd til að halda með, en þær voru merktar með tölum frá 1 til 150. Einn nemandi úr 1. bekk og annar úr 7. bekk giskuðu á önd nr. 5 sem var fyrst í mark. Fengu þeir að launum tvo bíómiða hvor. Tveir voru svo með háfa og sáu um að grípa endurnar þegar þær komu á leiðarenda, andasækjararnir Steinarr Bragason og Þórhallur Sverrisson.

Sigurður Ólason tók myndirnar.