Erla Björg Káradóttir

Erla Björg Káradóttir

Erla Björg Káradóttir er uppalin í Garðabæ. Hún er grunnskólakennari að mennt en lærði síðan óperusöng bæði hér heima og í Austurríki. Einnig er hún söngkennari og markþjálfi. Samhliða þessu hefur hún starfað mikið í barna-og æskulýðasstarfi hjá Þjóðkirkjunni og KFUM og K. Erla Björg tók við sem fræðslu- og æskulýðsfulltrúi hjá Hafnarfjarðarkirkju nú í haust.

„Ég sé mest um barna- og unglingastarfið en kem einnig að fræðslukvöldum og öðrum viðburðum. Ég sé til að mynda um foreldramorgnana, þar sem foreldrum ungra barna gefst tækifæri til að hittast, spjalla saman og deila reynslu sinni. Einu sinni í mánuði fáum við fræðsluerindi, í haust hafa t.d komið til okkar ungbarnanuddari og svefnráðgjafi.

Þá sé ég um sunnudagaskólann ásamt Hjördísi Rós Jónsdóttur. Þar ríkir mikil gleði á hverjum sunnudagsmorgni. Við syngjum, horfum á brúðuleikhús og skemmtileg myndbönd og börnin fá góða fræðslu. Síðan hef ég umsjón með TTT ásamt Ísak Henningssyni en það er skemmtilegt og fjölbreytt starf fyrir 10-12 ára krakka. Við hittumst á fimmtudögum, spilum, förum í leiki og þau fá uppbyggilega og góða fræðslu. Einnig tek ég þátt í fermingafræðslunni sem er ótrúlega gefandi og skemmtilegt.“

Hvað er helst á döfinni í starfi Hafnarfjarðarkirkju þessa dagana?

„Fyrir utan þessa föstu vikulegu liði erum við með viðburði a.m.k einu sinni í mánuði. Við fengum t.d til okkar sýninguna Hafdís og Klemmi og leyndardómar háaloftsins síðasta sunnudag sem var ótrúlega vel heppnað og mætingin var frábær. Þar sungu bæði barna- og unglingakór Hafnarfjarðarkirkju undir stjórn Helgu Loftsdóttur en í Hafnarfjarðarkirkju er frábært kórastarf.

Á döfinni er svo fræðslukvöld 23. nóvember með yfirskriftinni Hvernig hlustar þú? Þar ætla ég að fara yfir samskipti og hversu vel við hlustum á hvert annað, á okkur sjálf og hvernig við getum hlustað eftir Guði í kyrrðinni en þetta er sérstakt áhugamál mitt og kemur mikið inn í starf mitt sem markþjálfi. Eftir áramót mun ég síðan vera með námskeið fyrir fermingarbörnin í markþjálfun og sjálfseflingu. Síðan verða jólaball og jólavaka í desember.“

Gott starf í kirkjunni

„Hafnfirðingar hafa verið ágætlega duglegir að sækja í starfið okkar. Þeir mættu þó vera duglegri og endilega kynna sér allt það góða starf sem fer hér fram. Kirkjan er fyrst og fremst fólkið og það er okkar að gera kirkjuna enn öflugri og betri.“

 

Nánar um starfsemi Hafnarfjarðarkirkju á: hafnarfjardarkirkja.is