Kennaraskortur er landlægur vandi og á ekki eingöngu við um Hafnarfjörð. Staðreyndin er sú að færri eru að útskrifast sem kennarar nú en áður og því er baráttan um fagfólkið mikil. Allir hagmunaaðilar þurfa að leggjast á eitt, tala þessi faglegu störf upp og koma þeim á þann stall sem þau með réttu eiga að vera á. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ. 

Fanney D. Halldórsdóttir, Fræðslustjóri Hafnarfjarðarbæjar.

Ef öll sveitarfélög eiga að uppfylla skilyrði laganna um að hverjir 2 af 3 starfmönnum leikskóla séu með leikskólakennaramenntun þá vantar um 1500 leikskólakennara til starfa á Íslandi. Árið 2017 var einungis eitt sveitarfélag sem uppfyllti lágmarkið. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að nokkur aukning er í m.a. leikskólanám sem mun væntanlega skila sér í leikskólana eftir um 5 ár. Fræðslustjóri Hafnarfjarðarbæjar, Fanney D. Halldórsdóttir, er ósátt við þá umræðu sem sprottið hefur upp síðustu daga af menntunarleysi starfsfólks í Hafnarfirði. Verið sé að vinna mjög faglegt starf innan beggja skólastiganna þó sannarlega megi og eigi hlutfall fagmenntaðra starfsmanna að vera hærra. Þar sé um að ræða samfélagslegt vandamál þar sem færri hafa á síðustu árum sótt í nám í leik- og grunnskólafræðum en áður. Vandinn sé því ekki bara bundinn við Hafnarfjörð. Nýlegar upplýsingar frá undanþágunefnd, sem samþykkir leiðbeinendur í grunnskólum sýna, að sama er að gerast á landsvísu og í Hafnarfirði. „Við hjá Hafnarfjarðarbæ höfum lagt mikla áherslu á að vinna með stöðuna hjá okkur. Starfshópar hafa verið starfandi innan beggja skólastiganna og unnið m.a. að bættu starfsumhverfi kennara, minnkun álags í starfi og að auknum stuðningi við starfið. Yfirvinnupotti hefur verið komið á til að mæta faglegum verkefnum, nýjar rýmisáætlanir eru komnar í virkni, stytting vinnuvikunnar í skoðun og unnið að úrbótum í hljóðvist svo fátt eitt sé nefnt. Allt þetta hefur áhrif á ánægju starfsmanna“ segir Fanney.

Um árabil hefur Hafnarfjarðarbær boðið upp á námssamninga annarsvegar fyrir ófaglærða starfsmenn leikskóla sem vilja stunda fjarnám í leikskólakennarafræðum á háskólastigi. Hins vegar fyrir faglærða starfsmenn sem stunda viðurkennt framhaldsnám í leikskólakennarafræðum á háskólastigi í fjarnámi samhliða starfi við leikskóla bæjarins. Núna eru 14 starfsmenn á slíkum samningi. „Nær daglega eru við að kynna það mikilvæga starf sem fram fer innan leik- og grunnskóla Hafnarfjarðar. Hér er hægt að nefna mörg verkefni sem eru til þess fallin að vekja áhuga og vonandi kveikja á neista hjá einhverjum um framtíðarstarf. Nærtækustu dæmin eru útvíkkun læsistefnu sem nú nær til 6 mánaða barna og foreldra þeirra og nýja Hafnarfjarðarlíkanið líkanið okkar sem snýr að snemmtækri þjónustu við nemendur í leik- og grunnskólum og fjölskyldur þeirra. Þessi verkefni eru til þess fallin að hafa keðjuverkandi áhrif og munu þegar fram líða stundir auka starfsánægju kennara, fækka flöskuhálsum og bæta líðan nemenda. Þetta er langhlaup og við munum sjálf halda áfram að kynna það frábæra starf sem er á sér stað innan skólanna í Hafnarfirði. Þau verkefni selja og munu laða að faglegt og flott starfsfólk. Við megum heldur ekki gleyma því í þessari umræðu að í þessu góðu störf sækir fagfólk af öðrum sviðum sem hafa líka góða og faglega sýn á starfið og sinna því með miklum sóma, einmitt með aðstoð þeirra sem hafa viðeigandi menntun. Ég horfi mjög bjartsýn til framtíðar“ segir Fanney. Hafnarfjarðarbær er stöðugt að leita leiða til að fjölga kennurum á báðum skólastigum en þeir eru, eins og áður hefur komið fram, takmörkuð auðlind eins og staðan er í dag. Allar lausar stöður kennara, sem leiðbeinendur sinna, eru auglýstar árlega. „Það er von okkar að með góðu starfsumhverfi og hvatningu að við náum að kveikja löngun starfandi leiðbeinenda til fagmenntunar á sviðinu þannig að við getum ráðið þá til framtíðar“ segir Fanney að lokum.