Ég hef stundum sjálfum mér til skemmtunar sest fyrir framan verslunina Kailash með Begga eiganda sömu búðar og hamrað út nokkra blússlagara. Fleiri hafa brosað en ygglt sig við þessi uppátæki okkar en innihald hattarins sem við leyfum að liggja fyrir framan okkur hefur sjaldnast nægt til að kaupa kaffibolla á mann.
Þetta er ekki vegna þess að Hafnfirðingar séu nískari en annað fólk, vonandi er þetta ekki vegna þess hvað við erum leiðinlegir, mig grunar að ástæðan sé sú að við erum of fá í miðbænum á rölti á góðviðrisdögum.
Íbúar í miðbæ eru pest. Þetta segi ég sem einn slíkur. Íbúar koma þreyttir heim eftir vinnu eftir að verslunum lokar, brasa saman kvöldmatinn og vilja svo bara horfa á Kastljósið og Matlock áður en þeir leggjast til hvílu.
Þeir nenna ekki að fara á tónleika, en kvarta svo undan því að hvergi sé hægt að heyra lifandi mússík bæði skiptin á ári sem partýgallinn er dreginn fram, kallakókið sopið, munnurinn beyglaður og þær systur allar. Það þarf meira að segja að taka tillit til þeirra langi einhvern að opna pöbb eða indverskan veitingastað.
Við þurfum lifandi fólk. Fólk sem komið er til að upplifa, njóta og láta skemmta sér. Þessháttar fólk býr á hótelum og kallast í daglegu tali “túristar“. Þess háttar skepnur elda sér ekki bjúgu með uppstúf heldur fara út að borða á veitingastöðum, þessi dýr hella sér ekki upp á Bragakaffi, heldur rölta þau niður á kaffihús og lepja sitt latte þar. Fyrir svoleiðis fólk er fjárgrundvöllur til að spila lifandi mússík, sem íbúinn getur komið og hlustað á þegar hann nennir.
Ekki meiri þéttingu byggðar í miðbænum takk. Ég vil fá hótel og fullt af þeim.
Því ég er pest.