Í undirbúningi er samstarf Sorpu bs. og Hafnarfjarðarbæjar um að koma upp tækjabúnaði sem gerir bæjarbúum kleift að hefja plastsöfnun við heimilin sín. Rósa Guðbjarsdóttir, formaður bæjarráðs og fulltrúi Hafnarfjarðarbæjar í stjórn Sorpu bs, segir í samtali við Fjarðarpóstinn að hún geri ráð fyrir að þetta geti orðið að veruleika innan fárra mánaða.

„Áhugi á flokkun úrgangs hefur aukist mjög, sérstaklega pappírs og plasts, og íbúar hafa kallað eftir því að geta skilað plasti við heimili sín í stað þess að þurfa að fara með það í grenndargáma eða á endurvinnslustöðvar,“ segir Rósa, en sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru í samstarfi um móttöku sorps í gegnum byggðasamlagið Sorpu. „Söfnun pappírs í bláu tunnuna hefur gengið mjög vel og því sjálfsagt að stíga næstu skref og bjóða upp á plastsöfnun við heimilin.“ Reykjavíkurborg hafi síðastliðin tvö ár tekið við plasti í græna tunnu við heimilin og í Kópavogi hafi fyrir nokkrum mánuðum farið af stað í tilraunaverkefni um að bjóða íbúum upp á að skila plasti í bláu tunnuna með pappírnum og sé úrgangurinn síðan handflokkaður. Seltjarnarnesbær og Sorpa bs. hafi frá áramótum verið í tilraunaverkefni saman sem gangi út á að íbúar skili flokkuðu plasti í plastpokum í gráu tunnuna.

Sveitarfélögin verði samstíga
„Það er mín skoðun að farsælast og auðveldast sé að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafi móttöku sorps við heimilin með svipuðu móti ef raunverulegur árangur á að nást í þessum efnum til lengri tíma, því fólk flytur talsvert á milli sveitarfélaganna o.s. frv. og heppilegast að aðferðirnar séu ekki mjög mismunandi. Fulltrúar Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Mosfellsbæjar óskuðum eftir því á stjórnarfundi Sorpu að byggðasamlagið legði fram úttekt og upplýsingar um möguleika og kostnað við söfnun á plasti við heimilin.“ „Seltjarnarnesleiðin“ hafi í kjölfarið verið metin hagstæðust og einföldust og fól stjórn Sorpu framkvæmdastjóra byggðasamlagsins að undirbúa uppsetningu tækjabúnaðar fyrir sams konar leið fyrir 1. nóvember nk. „Sá undirbúningur er nú í gangi og vonandi verður þjónustan komin í gagnið á allra næstu mánuðum. Síðan þurfa umhverfis- og framkvæmdasvið sveitarfélaganna að meta og ákveða hvort breyta þurfi eða fjölga sorphirðudögum á hverjum stað. En það er ákaflega ánægjulegt og tímabært að nú verði hægt að bjóða upp á þessa þjónustu,“ segir Rósa.