Olga Björt Þórðardóttir

Eins og margir aðrir íbúar Hafnarfjarðar sem ganga mikið um bæinn minn, hef ég á undanförnum árum oft tekið eftir rusli og dýraskít hér og þar og gjarnan leitt það hjá mér því ég hef ekki viljað láta það eyðileggja fyrir mér upplifunina sem fylgir hreyfingu og útiveru. Mér hefur fundist jafnvel vera mál bæjaryfirvalda að hreinsa í kringum rassgatið á mér.

 

Eftir að ég varð ritstjóri annars bæjarblaðanna og fór að fylgjast með umræðu á íbúasíðum tók ég eftir því hversu oft rusl og skítur fara í taugarnar á fólki. Á síðurnar hafa gjarnan verið settar inn myndir og skammir til ótilgreindra aðila, sem örugglega annað hvort sjá ekki innleggin eða var hvort sem er skítsama. Þetta hefur þjónað litlum tilgangi, þótt reiðikalla-lækin urðu mörg við færslurnar og enn reiðari ummæli bættust við.

Við vitum sem fyrrum börn og núverandi uppalendur að skammir virka skammt og illa þegar við viljum bættari og betri hegðun. Við vitum alveg að jákvæð hvatning, styrking, efling og hrós virka margfalt betur. Börn og fullorðnir verða að sjá og finna að það sé þess virði að bæta sig; upplifa ávinninginn. Og við erum öll fyrirmyndir hvers annars.

Það er akkurat það sem hefur gerst í umhverfismálum í Hafnarfirði (og víðar um land) eftir að íbúar fóru að sýna fordæmi og hreinsa í kringum sig, taka mynd af því og setja inn í hópinn Plokk á Íslandi. Og fá hrós og hvatningu fyrir. Þannig sést ávinningurinn (stundum tugir ruslapoka) og verður eðlilega meira hvetjandi fyrir aðra.

Börnunum finnst þetta mjög spennandi og skemmtileg samvera og útivera með foreldrum og systkinum. Það er búið að vera einstaklega gefandi að fylgjast með þessari þróun og ég hef sérstaklega tekið eftir því hversu innleggjum um rusl hefur fækkað á íbúasíðum. Og þar sem svæði eru hrein, gengur fólk síður illa um.

Hvort sem fólk vill kalla þetta plokk eða að tína rusl, er algjört aukaatriði.

Þetta einfaldlega virkar!