Þeir Ólafur Þ. Kristjánsson skólastjóri Flensborgarskólans og Þorgeir Ibsen skólastjóri Lækjarskóla létu þau boð út ganga í útvarpstilkynningu haustið 1965 að nemendum bæri að mæta snyrtilega klipptir í skólana. Ólafur sagði í viðtali að þessi tilmæli væru sum part orðin til frá útlitssjónarmiði en einkum þó frá heilsugæslusjónarmiði. Þetta væri gert í öryggisskyni — til varnar óþrifum. Taldi hann að miklu hári fylgdi hætta á óþrifnaði og lúsasmiti.

Að hans mati gat bítlahárið þó einnig haft áhrif á lundarfar nemenda: „Ég hef tekið eftir því, að þegar nemandi er kominn með svona hár, er hugurinn kominn í allt annað en námið — það er eins og hárvöxturinn hafi ekki bætandi áhrif á hugarfarið.“ Taldi hann þó að nokkuð hefði dregið úr þessari tísku frá haustinu áður og að eitt af því sem valdið hafði þeirri breytingu mætti rekja til FH. Þar var sú ákvörðun tekin hjá þjálfurum unglingaflokka félagsins að setja iðkendum þá reglu að þeir færu ekki til keppni undir merkjum félagsins nema „sæmilega klipptir“ og hafði það mikil áhrif.

 

Bítlamynd: WordPress.com

Myndir af Ólafi og Þorgeiri af tímarit.is