Okkar fólk í framboði til Alþingis

Fjarðarpósturinn hafði samband við þá Hafnfirðinga sem skipa efstu sæti á framboðslista hvers stjórnmálaafls fyrir sig og munu þeir kynna sig og stefnu síns flokks í þessu tölublaði og í næstu viku.

 

Ég heiti Linda Hrönn Þórisdóttir og starfa sem sérfræðingur fyrir Barnaheill – Save the Children á Íslandi. Ég er leikskólakennari, hef lokið meistaraprófi í stjórnun menntastofnana og öðlast réttindi sem grunnskólakennari. Ég hef starfað í leikskólum undanfarin tuttugu ár, byrjaði sem leiðbeinandi og síðast sem leikskólastjóri.  Það er unnið af miklum metnaði í leikskólum en áhyggjur mínar eru samt þær hversu erfitt er nú að fá til starfa fagfólk á sama tíma og rannsóknir sýna betur og betur hve leikskólinn er mikilvægur í þroska og mótun hvers einstaklings. Leita þarf leiða til að gera starf í leikskólum meira aðlaðandi og skilgreina leikskólann upp á nýtt.

Andleg vanlíðan barna og ungmenna hefur verið að aukast og því miður engin einföld lausn í sjónmáli. Stytting vinnuvikunnar á að koma til skoðunar og tel ég raun slíkt markmið  vera forgangsmál. Með því aukum við  samveru barna og foreldra þeirra. Framsóknarflokkurinn er einn flokka með raunhæfar lausnir á húsnæðisvanda ungs fólks. Svissneska leiðin auðveldar kaup á fyrstu fasteign. Framsóknarflokkurinn hefur einnig skýr markmið varðandi verðtrygginguna og vill afnema hana á neytendalánum.  Aukið fjármagn í mennta-, samgöngu- og heilbrigðismál eru  einnig forgangsmál. Um það getum við öll verið sammála.  Tökum höndum saman og setjum X við B.

Linda Hrönn skipar 3. sæti í Suðvesturkjördæmi á lista Framsóknarflokksins.