Þór Bæring Ólafsson rekur skemm­ti­lega ferðaskrifstofu hér í bæ. Hann stjórnaði einum vinsælasta útvarpsþætti landsins um árabil, hleypur maraþon og spilar borðtennis á föstudögum.

Þór er fæddur og uppalinn í Garðabæ en elti konuna, eins og hann orðar það, í Hafnarfjörðinn árið 2004. Hún heitir Hulda Hlín Ragnars og er úr Norðurbænum og búa þau þar í dag. Saman eiga þau tvö börn, Tinnu 13 ára og Benjamín 8 ára, bæði í Víðistaðaskóla.

Útvarpsmaðurinn Þór

Þór við stjórnborðið hjá Kananum

Þór við stjórnborðið hjá Kananum

Þór byrjaði snemma að fikta við útvarp. Fyrsti útvarpsþáttur hans var barnaþáttur á Rás 1 þegar hann var aðeins 12 ára gamall. Þáttinn gerði hann ásamt Sigurði Helga, æskuvini sínum í Holtsbúðinni í Garðabæ. Svo var það framhaldsskólastöðin Útrás á meðan hann var enn þá í grunnskóla en Jón Óli, eldri bróðir hans, var útvarpsstjóri þar á bæ. Eftir það var það útvarpsstöðin Sólin og í kjölfarið FM957. „Þar var ég í tæp 10 ár og hápunktarnir voru klárlega morgunþáttur með Steina en í þeim þætti reyndum við að gera hlutina öðruvísi og það tókst bara mjög vel. Svo síðar var ég með morgunþátt með Þresti 3000 og það var sömuleiðis mikil vitleysa og heill hellingur af gleði.“ Eftir þetta tímabil tók Þór sér smápásu frá útvarpinu þar til Einar Bárðarson fékk hann aftur að hljóðnemanum árið 2009. Þá hafði Einar nýverið stofnað útvarpsstöðina Kanann sem breytti síðar um nafn og heitir í dag K100. „Ég hef nú reyndar ekki mikinn tíma fyrir útvarpið núna en tek eina og eina vakt þegar nærveru minnar er óskað á K100. Þetta er bara svo gaman. Það er erfitt að hætta þessu alveg.“

Fallhlífarstökk í Florida

Alveg í skýjunum í beinni útsendingu.

Alveg í skýjunum í beinni útsendingu.

Eftir svona langan tíma í útvarpi er ekki úr vegi að spyrja hvað standi upp úr, hvort ekki séu til einhverjar skemmtilegar sögur úr bransanum. „Ég hef reynt ótrúlegustu hluti í beinni útsendingu í útvarpinu. Við Steini tókum þátt í ralli einu sinni og ég þóttist vita það hvað það er að vera aðstoðarbílstjóri í slíkri keppni. Sem betur fer er Steini frábær bílstjóri og náði að bjarga okkur úr fjölmörgum vandræðum þegar ég sagði honum vitlaust til.
Svo prófaði ég auðvitað, eins og útvarpsmenn gera, að fara í fallhlífarstökk í beinni en ég var þá staddur á Florida með fjölmörgum hlustendum. Ég var mjög stressaður og náði ekki að opna fallhlífina en sem betur fer var kennarinn minn mjög nálægt mér og náði að opna fallhlífina fyrir mig. Ég verð að viðurkenna að á þeim tímapunkti var ég orðlaus. Ég hef ekki enn þá viljað hlusta á þá upptöku. Það heyrðist víst bara í vindinum í ansi langan tíma í þeirri beinu útsendingu. Ég hef ekki enn þá sagt mömmu frá þessu. Svo prófaði ég árið 2012 að hlaupa maraþon í beinni útsendingu. Það byrjaði brösuglega en ég náði að segja fréttir, kynna lög, taka viðtöl og fara yfir veðrið á þessum rúmlega fjórum tímum sem hlaupið tók mig. Þar náði ég að sameina tvennt sem mér þykir hvað skemmtilegast, að tala í útvarpi og hlaupa.“

Eftir maraþon í Kaupmannahöfn

Eftir maraþon í Kaupmannahöfn

Fékk hlaupabakteríuna í Kaupmannahöfn

Árið 2007 flutti fjölskyldan til Kaupmannahafnar þar sem Hulda, kona Þórs, var á leiðinni í meistaranám. Þar segist Þór hafa fengið hlaupabakteríuna. „Ég hafði meiri frítíma en áður og ákvað að byrja að hlaupa enda frekar þungur á mér og hef eiginlega ekki hætt að hlaupa síðan. Fyrsta alvöruhlaupið var hálft maraþon í Prag 2008 og síðan þá hef ég hlaupið nokkur maraþon, hálfmaraþon og 10 km hlaup á flakki mínu um heiminn. Svo tekur maður auðvitað þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og Gamlárshlaupinu á hverju ári hér á Íslandi.“

 

Komst í landslið í blaki

itrottir1Hlaupin eru ekki fyrsta íþróttin sem Þór tekur þátt í en hann segist vera eiginlegur íþróttafíkill. „Ég horfi mikið á íþróttir í sjónvarpinu og svo reyni ég að fara á alla karla- og kvennaleiki FH í fótboltanum með fjölskyldunni. Á ferðum mínum erlendis reyni ég líka alltaf að finna einhvern íþróttaviðburð til að fara á í leiðinni.“ Bæði börn hans æfa fótbolta með FH og fara sumrin í það að ferðast um landið og horfa á þau æfa og keppa. „Ég æfði blak, handbolta og fótbolta á mínum yngri árum með Stjörnunni í Garðabænum. Náði meira að segja að komast í unglingalandsliðið í blaki en ákvað þá að hætta á toppnum. Í dag er ég duglegur að synda, hlaupa og spila blak með vinahópnum úr Garðabæ.“

Gaman í ferðabransanum

Ásamt fjölskyldunni á EM í sumar

Ásamt fjölskyldunni á EM í sumar

Þór hefur verið viðloðandi ferðabransann síðan 2003 en þá stofnuðu hann og Bragi Hinrik Magnússon, félagi hans, ferðaskrifstofuna Markmenn sem sérhæfði sig í íþróttaferðum. Hann segir jafnframt að sú ferðaskrifstofa hafi náð að lækka verð á fótboltaferðum töluvert og úr varð alvöru samkeppni á þeim markaði. Árið 2005 keypti svo Iceland Express Markmenn og fylgdu þeir félagar með í kaupunum. Í kjölfarið breyttist nafnið í Express Ferðir en árið 2007 sögðu þeir svo skilið við Express Ferðir og fóru að mennta sig aðeins meira. „Í ársbyrjun 2012 tókum við þá ákvörðun að nú væri okkar tími kominn á ný í ferðabransanum og stofnuðum Gamanferðir í eldhúsinu hjá mér á Suðurvangi þar sem ég bjó á þeim tíma. Í framhaldinu gerðum við samstarfssamning við WOW-air en þeir hafa verið frá upphafi okkar helstu samstarfsaðilar,“ segir Þór en fyrra keypti svo WOW-air helmingshlut í Gamanferðum.

Í dag eru Gamanferðir alhliða ferðaskrifstofa sem býður upp á allar gerðir ferða. „Við erum með í boði sólarferðir, borgarferðir, fótboltaferðir, tónleikaferðir, hreyfiferðir, námsferðir, skíðaferðir, sérferðir, golfferðir og æfinga- og keppnisferðir fyrir íþróttafélög meðal annars. Svo er hópadeildin okkar að stækka hratt en við bjóðum fyrirtækjum og hópum flottar ferðir hvert sem er í heiminum. Okkar sérstaða hefur alltaf verið sú að við reynum að bjóða allar okkar ferðir á sanngjörnu verði og erum samt sem áður með þjónustuna við viðskiptavini okkar í fyrsta sæti.“

Fjölgun ferðamanna til Íslands hefur kallað á fleiri ferðaþjónustufyrirtæki til að sinna þeim og í sumar stofnuðu Gamanferðir innanlandsdeild undir nafninu Gaman Travel. „Það er ljóst að sú deild mun stækka hratt á næstu mánuðum miðað við viðtökurnar á þessum fyrstu vikum,“ segir Þór.

Hvert vilja Íslendingar fara yfir vetrarmánuðina?

„Það er alveg á hreinu að Íslendingum fyrst voða gott að skella sér í sólina. Ferðir okkar til Tenerife og Costa Brava hafa verið vinsælastar. Síðan eru það auðvitað hreyfiferðirnar, tónleikaferðirnar og fótboltaferðirnar okkar, þær standa alltaf fyrir sínu. Það er eintök tilfinning að vera á vellinum og upplifa þennan hasar beint í æð. Svo má líka minnast á aðventuferðirnar okkar til Kaupmannahafnar og Berlínar í desember.“

Borðtennismót á föstudögum

Gamanferðir fluttu nýverið í stærra og hentugra húsnæði að Bæjarhrauni enda hefur fyrirtækið stækkað og dafnað á síðustu árum. Í dag starfa ellefu manns hjá fyrirtækinu og meirihluti þeirra býr í bænum. „Við erum afar glöð með það að vera komin hingað enda fer mjög vel um okkar hérna í Hafnarfirði. Fyrsta árið var fyrirtækið bara í eldhúsinu heima en síðan fluttum við á Fjarðargötu. Við vorum auðvitað bara tveir til að byrja með og því eina vitið að hafa það í Hafnarfirði þar sem við bjuggum báðir þar. Og nú síðast þegar við vorum að leita af nýju húsnæði kom Hafnarfjörður bara til greina.“
Það er svo sannarlega gaman á vinnustaðnum því á föstudögum klukkan þrjú er gólfið rýmt og borðtennisborðið tekið fram. Þá er alltaf mót á milli starfsmanna sem er víst tekið mjög alvarlega en þó allt í mesta bróðerni að sögn Þórs sem bætir við að mótið sé afar mikilvægt fyrir starfsandann.

Útvarpsmaður eða ferðamaður?

„Ég hafði nú ekki mikla trú á því að ég myndi einhvern tímann finna vinnu sem væri „skemmtilegri“ en útvarpið en ótrúlegt en satt, ég fann hana. Þetta snýst allt um það að vera þú sjálfur, hvort sem það er í útvarpinu eða sem framkvæmdastjóri Gamanferða. Aðalatriðið er bara að maður hlakki til að fara í vinnuna þegar maður vaknar á morgnana. Ég hef sem betur fer alltaf vaknað brosandi og klár í slaginn,“ segir Þór að lokum og býður blaðamanni í borðtennisleik. Hér verður ekki tekið fram hvernig hann fór.

 

Þór leggur heiminn að fótum sér

Þór leggur heiminn að fótum sér