Þarsíðasta þriðjudag var íbúafundur um Reykjanesbraut í Bæjarbíó.

Þar var fólk beðið að rétta upp hendi sem hefðu keyrt Reykjanesbrautina yfir daginn, 95% af salnum rétti upp hönd.

Þá spyr ég, réttið upp hendi sem hafa lent í bílslysi á Reykjanesbraut á kaflanum frá Álverinu að Kaplakrika eða þekkja einhvern sem hafa lent í bílslysi þar. Svarið er ALLTOF margir!

Þessi áhættusama akstursleið er mér of kunn, systir mín lenti í mjög alvarlegu bílslysi við gatnamótin við Rauðhellu og maðurinn minn lenti í mjög alvarlegu bílslysi við hringtorgið hjá N1.

Að heyra sögur íbúa í Setberginu voru ekki nýjar fréttir, ég hef oft velt því fyrir mér hvernig fólk kemst út úr hverfinu. Sjálf fer ég ekki á þetta hringtorg, ég einfaldlega þoli það ekki. Umferðin þarna er gífurleg, hraðinn er mikill og það er nánast ómögulegt að koma frá Lækjargötu inn á þetta hringtorg, hvað þá úr Setberginu.

Á fundinum komu fram hugmyndir um að setja upp ljósastýrð gatnamót, sem bráðabirgðalausn. Man fólk ekki lengra en svo að þarna voru ljósastýrð gatnamót og þau voru stór hættuleg? Ákveðið var að breyta þessu í hringtorg til að minnka slysahættu. Ég trúi því að það var mögulega besta lausnin á sínum tíma en umferðin hefur aukist síðan þá og nú er kominn tími til þess að endurhugsa Reykjanesbrautina frá Krísuvíkurafleggjara og alveg að Kaplakrika, hætta þessu bráðabirgðar plástrum.

Til þess að leysa þennan vanda Hafnfirðinga og nærsveitunga þá verðum við að hugsa fjölbreyttar lausnir. Ég tel að Borgarlínan, þegar hún kemur geti leyst hluta vandans. En við komumst aldrei hjá því að lagfæra Reykjanesbrautina og viðurkenna hana sem okkar hraðbraut, þó svo að hún liggi í gegnum bæinn. Umferðin er orðin það mikil í gegnum bæinn að mikilvæg er að horfa á frekari uppbyggingu á svæðinu heildstætt og fjölbreytt.

 

Karólína Helga Símonardóttir, Hafnfirðingur og móðir !

  1. sæti á lista Bjartrar framtíðar í Suðvestur kjördæmi