Hafnfirska samfélagsmiðlastjarnan Heiðar Logi Elíasson hefur undanfarið ár einbeitt sér mikið að því að styrkja sig enn meira líkamlega til að takast á við öldur í brimbrettaíþróttinni, en hún er erfiðari fólk getur almennt ímyndað sér. Hann hefur þó einnig litið inn á við, því hann á slæma daga eins og allir aðrir og ætlar brátt að opna sig meira með það á Instagram og Snapchat. Hann gerir sér vel grein fyrir mikilvægi þess að vera góð fyrirmynd. Og svo er hann kominn með kærustu.

„Þetta síðasta ár er búið að vera frábært. Ég fór mikið á brimbrettið og stundaði mikið jóga með því. Ég vildi ná meiri árangri í brimbrettaíþróttinni og fór markvisst að styrkja mig líkamlega. Eftir að ég gerði það náði ég að vera lengur á brettinu í einu og hélt enn meira jafnvægi. Þegar ég var að byrja í þessu þá var bara að það að synda frá landi og til baka rosalega erfitt. Núna get ég verið á fullu í 5-6 tíma í einu,“ segir Heiðar Logi og ljómar í andlitinu. Hann er líka verulega sáttur við nýjasta styrktaraðilann sinn, Nissan umboðið.

Þarna kann okkar maður vel við sig. Mynd/Lloyd Moore.

Góður bíll lykilatriði

„Mig hefur lengi dreymt um að vera á nýjum og sérútbúnum bíl með Camper aftan í sem ég get gist í hvar og hvenær sem er. Ég hef hingað til verið á húsbílum sem eru miklir karakterar, en hef þó setið fastur í biluðum bíl án símasambands. Það setur strik í reikninginn fyrir brimbrettakappa. Því er frábært að vera kominn á Nissan Navara, sem er bæði flottur og góður og hentar mér vel í því sem ég er að gera.“ Það er heilmikið umstang sem fylgir brimbrettaíþróttinni og snýst það mikið til um að finna öldurnar sem verða til í stormi og helst köldu veðri. „Við keyrum í gegnum stormana og handan þeirra eru öldurnar. Oft við erfiðar aðstæður, aðallega á veturna. Því er lykilatriði að vera á góðum bíl og þurfa ekki að redda sér gistingu,“ segir Heiðar Logi, en hann van með Nissan genginu að samfélagsmiðlaauglýsingu sem vakti mikla athygli. Hún sýndi einmitt vel aðstæðurnar og ferlið.

Við Nissaninn í íslenskum aðstæðum. Mynd/Erlendur Magnússon.

Á stundum erfiða daga

Hvernig er samt lífið sem samfélagsmiðlastjarna? Heiðar Logi brosir breitt. „Þetta er skemmtilegasta starf sem ég hef verið því því það gerir mér kleift að gera það sem mig langar að gera.“ Svo kemur aðeins dýpra yfirbragð yfir andlit hans. „Það er samt ekki alltaf hægt að gera eitthvað skemmtilegt á þessum miðlum. Það koma lægðir hjá mér eins og öðrum. Ég á stundum mjög erfiða daga alveg og þá er andlega hliðin ekkert á góðum stað.“

Með brettafélaga. Mynd/Lloyd Moore.

Hvað gerir Heiðar Logi þá? „Þá reyni ég að halda orkunni fyrir mig og hvíli miðlana, safna mér saman og minni mig á að það sé eðlilegt að detta í lægðir. Ég nota jóga líka mikið til að horfa inn á við. Þegar ég var yngri var ég oft þunglyndur og spurði sjálfan mig hvers vegna ég ætti slæma daga; þegar mér fannst allir hinir vera alltaf í góðu skapi. Í dag veit ég að þessir daga koma og fara. Allar samfélagsmiðlastjörnur sýna sína bestu hliðar og eru þá alltaf í góðu skapi, nóg að gera og alltaf hreint heima hjá þeim. En þetta er skapandi vinna. Ef maður á góðan dag þá kemur það bara náttúrulega. Það er erfiðara að skapa á slæmum dögum.“

Heiðar Logi og kærastan Anna Sóley á Balí. Mynd í einkaeigu.

Kærastan og Balí

Viljinn til að góð áhrif á aðra geislar frá Heiðari Loga og hann veit að hann er mikilvæg fyrirmynd. „Því ætla ég að segja oftar frá því að ég á líka slæma daga. Það gæti hjálpað þeim sem eru sífellt að bera sig saman við aðra. Eins og ég stundum. Er ég að klúðra? Sífelld krafa um að gera sniðug snöpp. Það er bara fínt að ræða þetta aðeins og ég er ekkert feiminn við það.“

Heiðar Logi í einu af sínum náttúturlegu umhverfum. Mynd í einkaeigu.

Áður en Heiðar Logi fer á fullt í það er hann þessar vikurnar að hlaða batteríin á Balí með kærustu sinni, Önnu Sóleyju Viðarsdóttur. „Ég dýpka jógafærni mína og skilning í fjórar vikur. Eftir það fer ég einn að brimbrettast á einum besta stað í heimi til þess, Mentawai Islands í V-Indónesíu. Ég vakna, fæ mér ferska ávexti og svo er tekinn bátur að staðnum og svo er maður bara á brettinu. Ég verð alveg rosalega nægjusamur í svona ferðum; vakna líka snemma og sofna snemma. Ég er líka alltaf að reyna að verða betri manneskja og ráðast í mína bresti. Þegar ég er í þeim gír að velta mér upp úr því þá er gott að skrifa niður og koma því frá mér. Þannig kemur sjálfsskilningurinn og árangurinn. Ef fólk dreymir um eitthvað eða vill ná árangri, þá á bara að vinna í því að gera það að veruleika. Annars verður draumurinn alltaf bara draumur,“ segir Heiðar Logi að lokum.

Forsíðumynd af Heiðari Loga við Nissan bílinn/Erlendur Magnússon.