Róbert Ísak Jónsson, 17 ára sundkappi hjá Firði, er íþróttamaður ársins meðal þroskahamlaðra, ásamt frjálsíþróttakonunni Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íþróttasambandi fatlaðra, en kjörinu var lýst á Radisson Blu Hóteli Sögu í dag. Þetta er í fyrsta sinn sem Róbert hlýtur útnefninguna Íþróttamaður ársins en hann hefur verið á mikilli siglingu síðustu ár og m.a. unnið Nýársmót fatlaðra barna og unglinga þrjú síðustu ár og varð heimsmeistari á árinu 2017. 

Magnað ár er að baki hjá Róberti sem vann til tvennra silfurverðlauna á Evrópumeistaramótinu í sundi sem fram fór í Dublin síðastliðið sumar. Á árinu setti Róbert 18 Íslandsmet, varð ferfaldur Norðurlandameistari og varð stigahæsti ungi sundmaðurinn undir 18 ára aldri á heimsmótaröð IPC í sundi. Þjálfarar Róberts frá upphafi eru Ólafur Þórarinsson, Helena Hrund Ingimundardóttir, Klaus Jurgen Ohk og þjálfari Róberts í dag er Mladen Tepavcevic.

Róbert var nýverið valinn Íþróttamaður ársins hjá Íþróttafélaginu Firði og varð Íslandsmeistari í sjósundi ásamt því að verða bikarmeistari með Firði í bikarkeppni ÍF síðasta sumar. Alls vann Róbert til 25 verðlauna á árinu á erlendri grundu og varð þrefaldur aldursflokkameistari á AMÍ í sumar.

Róbert var staddur í fríi í útlöndum þegar kjörinu var lýst og meðfylgjandi mynd fylgdi með tilkynningunni.