Nýverið festi Hafnarfjarðarbær kaup á ruslasugu sem nýtt er í hreinsunarverkefni í miðbæ Hafnarfjarðar og víðar. Hennar fyrsta verkefni var að þrífa það litla rusl sem eftir var í miðbænum fyrir hátíðarhöldin á 17. júní og hefur hún staðið vaktina síðan.

Sugunni var gefið nafn á dögunum og þótti viðeigandi að ungmennin úr Vinnuskóla Hafnarfjarðar, flokkstjórar þeirra og viðeigandi stjórnendur væru viðstödd nafngiftina enda um að ræða tæki sem nýtist þeim vel við vinnu sína. Tillaga að nafni kom frá áhugasömum íbúa. Mangi mun ruslasugan heita og þykir það vel viðeigandi þar sem hann Mangi er jú alltaf svangur og til í meira rusl (sbr. Langi Mangi Svanga-Mangason). Nafnið á sér líka sögu hér í Hafnarfirði en maður að nafni Mangi starfaði lengi vel við hreinsunarstörf hér í Firðinum og er hans og Gunna nokkurs Dó m.a. minnst fyrir framlag þeirra til hreinsunarmála. Gunni Dó var einn þeirra sem um árabil sá um að hreinsa miðbæinn svo mikill sómi var að.

Mynd: Bæjarstjórinn Haraldur L. Haraldsson tilkynnir nafn ruslasugunnar.