Í þessum glænýja lið mun Dagný Gylfadóttir ríða á vaðið og kynna sig og sína list. Dagný er keramikhönnuður sem útskrifaðist 2014 í Englandi og var 2 ár í diplóma keramiknámi í Myndlistarskólanum í Reykjavík. Dagný hannar undir merkinu DAYNEW.

„Sumarið 2014 stofnaði ég vinnustofurými með öðrum hönnuðum í Íshúsi Hafnarfjarðar. Þar starfa ég alla daga við hönnun mína. Þetta er mitt aðalstarf. Innblástur kemur aðallega frá klassískum Sirkus munstrum; rendur, tíglar, fánar, sikk sakk, þríhyrnd form og sirkus tjöld spila þar stórt hlutverk í hönnun hlutanna. Nýjasta vörulínan samanstendur af skemmtilegum útfærslum af fjöllum; smáfjallavasar, fjallastjakar og Fjallavasinn.“

Dagný leggur áherslu á að í hönnuninni séu glaðlegir litir og skemmtileg form. „Ég sæki einnig innblástur í barnæskuna með leik að leiðarljósi. Þá hanna ég alla mína hluti frá grunni og bý þá sjálf til úr postilínsleir, teikna línur og mála í fallegum pastellitum.“ Dagný er einn af átta eigendum Kaolin Keramik Gallerí við Skólavörðustíg 5, sem er eina galleríið á Íslandi sem selur eingöngu keramik og þar afgreiða listamennirnir sjálfir. Vörur DayNew fást í Kaolin Skólavörðustíg 5, Litlu Hönnunarbúðinni í Hafnarfirði, Scintilla Laugavegi 40, Húsi Handanna á Egilstöðum og í Listfléttunni og Menningarhúsinu Hofi á Akureyri.

DAYNEW á instagram 
DAYNEW á Facebook

Dagný skorar á næsta listamann sem er í miklu uppáhaldi og er einnig með vinnustofu í Íshúsi Hafnarfjarðar, hann Palla sem er með Himneska herskara.