Björgvin Franz Gíslason og Esther Jökulsdóttir, ásamt frábærri hljómsveit, flytja öll bestu jólalög sjötta og sjöunda áratugarins í anda Ellu Fitzgerald, Dean Martin og fleiri góðra krafta. Þau skapa hlýlegt andrúmsloft í tónum, tali og dansi ásamt hinum sanna jólaanda sem þekktist í kringum 1950. Björgvin og Esther eru bæði Hafnfirðingar og gamlir vinir sem hafa langað að gera eitthvað í heimabænum og stefna á að hafa þetta árlegt.

Sögusviðið er Ísland í kringum 1950. Björgvin og Esther leika íslensk hjón og skemmtikrafta sem segjast hafa ferðast um Bandaríkin, skemmt með Dean Martin, Bing Crosby og  fleirum ásamt því að heilla framáfólk á borð við Marilyn Monroe og Joe DiMaggio. Þau segja slúðursögur af ríka og fræga fólkinu (og sýna myndir af þeim til sönnunar) ásamt því að lýsa muninum á íslenskum og amerískum jólahefðum. Þau kynna einnig inn nýjungar sem komu fram á sjónarsviðið eins og „Frozen TV dinner“ og Radarange örbylgjuofninn (sem var um 3 metrar á hæð vóg 700 kíló). Að sjálfsögðu koma svo leynigestir sem tengjast þessum gamla tíma.

Hæfilegt magn af kaffilíkjör

„Karakter minn (Gylfi Freyr) er daðrandi og glaðleg „Dean Martin“-týpa en karakter Estherar (Jóna Guðrún) reynir að hylma yfir óþægindin með yfirborðskenndri gleði og hæfulegu magni af kaffilíkjör. Þau berjast um hylli áhorfenda sem má kannski rekja til töluverðrar spennu í hjónbandi þeirra, tengdu afar frjálslegu líferni Gylfa. Hugmyndin er að skapa ósvikna stemmningu eins og best sást í amerískum jólaskemmtiþáttum frá þessum tíma þar sem ýkt gleði réði ríkjum en einlægnin kom fram í lögunum. Leikmyndin saman stendur af amerískri jólastofu með arin og jólatré, ásamt fallegu útisvæði með garðbekk, ljósastaur og gervisnjó,“ segir Björgvin.

Einvalalið í hljómsveit

Með Esther og Björgvin er saman komið úrvalslið tónlistarmanna þar sem áhersla er lögð á stórbrotnar raddútsetningar sem þekktust svo vel á þessum tíma. Hljómsveitina skipa Aðalheiður Þorsteinsdóttir, Gunnar Hrafnsson, Andrés Þór Gunnlaugsson og Erik Qvik. Raddkarlatríóið er skipað þeim Gísla Magnasyni, Hafsteini Þórólfssyni og Hlöðveri Sigurðssyni. Leikstjóri er Björk Jakobhnasdóttir en um lýsingu sér Sindri Þór Hannesson og hljóðhönnun er í höndum Kristins Snæs Sturlusonar.

Hér er hægt að kaupa miða.