Jöfnuður og góð velferðarþjónusta eru forsenda réttláts samfélags og skapar öryggi og efnahagslegan stöðugleika.

Öruggt húsnæði!
Húsnæðismálin eru eitt stærsta velferðarmálið. Við í Samfylkingunni viljum stórauka framboð á húsnæði á viðráðanlegu verði. Það er mikilvægt að bæjaryfirvöld beiti sér fyrir því að húsnæðissamvinnufélög reisi hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur, fyrir stúdenta, aldraða og fólk með lágar tekjur. Hvað þetta varðar hefur núverandi meirihluti skilað nær auðu! Einungis er búið að úthluta lóð undir 42 leiguíbúðir til Bjargs leiguíbúðafélags ASÍ og BSRB á kjörtímabilinu. Og framkvæmdir eru enn ekki hafnar vegna strangra skipulagsskilmála. Hverju sætir það?
Félagslegar íbúðir í bænum eru aðeins 250 og 120 eru á biðlista og margir þeirra í mikilli neyð og hafa beðið lengi. Til að anna eftirspurn þarf að fjölga verulega íbúðum til að svara eftirspurn. Þessu þarf að mæta og það strax!

Það skiptir máli hverjir stjórna!
Það skiptir máli hverjir stjórna. Það skiptir máli hvaða áherslur við leggjum til grundvallar í okkar bæjarfélagi. Við í Samfylkingunni viljum að jöfnuður og réttlæti séu meginstef og að allir séu með í samfélagi sem kann að meta verðleika hvers og eins einstaklings.
Stjórnmál snúast um þjónustu, þjónustu við fólk og fyrir fólk. Við verðum að setja fólkið í forgang og tryggja því lífs- og búsetuöryggi. Um það snýst þetta allt saman.
Ef fólk vill breytingar og að allir séu með í hafnfirsku samfélagi, ef fólk vill jöfnuð og réttlæti til handa öllum og örugga búsetumöguleika þá setur það X við S á kjördag þann 26. maí. Höfum það hugfast!

Höfundur er varabæjarfulltrúi og skipar 2. sætið á lista Samfylkingarinnar.