Samgöngumál eru einn áhugaverðasti málaflokkur sveitafélaganna. Viðreisn hefur þá einföldu og skýru samgöngustefnu að framtíð samgangna í Hafnarfirði séu fjölbreyttar sem setja fólk í forgang.

Samkvæmt úttekt sem gerð var fyrir samtök sveitafélaga á höfuðborgarsvæðinu fyrir nokkrum árum þá vinna 31% Hafnfirðinga í Hafnarfirði. Þegar við bætast nemendur í leik- og grunnskólum þá er ljóst að um 50% ferða Hafnfirðinga í byrjun dags er innanbæjarumferð.

Í ferðavenjukönnun sem var gerð á nemendum í grunnskólum Hafnarfjarðar kom í ljós að 35-56% nemenda er skutlað í skólann á meðan sama hlutfall í Reykjavík er 22%.  Bær sem kennir sig við heilsu og íþróttir á ekki að sætta sig við svona tölur. Þessu er hægt að breyta með því að forgangsraða uppbyggingu þannig að gangandi og hjólandi séu settir í forgang.

Helmingur bílferða eru styttri en 5 kílómetrar sem þýðir að bær sem leggur áherslu á gott aðgengi gangandi og hjólandi getur fært heilmikla umferð frá bílum og út á göngu- og hjólastíga og búið til mannvænna samfélag og stórbætt lýðheilsu. Hvað þýðir þetta fyrir bílaumferð? Jú, þeir sem þurfa að vera á bíl af ýmsum ástæðum komast greiðar milli staða.

En stóra málið snýr að Reykjanesbrautinni sem sker fallega bæinn okkar í sundur. Brautin er hættuleg, þar verður stór hluti umferðarslysa í Hafnarfirði, hún veldur loftmengun, hljóðmengun og sjónmengun. Viðreisn hefur sett fram skýra sýn í þessu máli undir heitinu Reykjanesbraut í stokk.

Viðreisn mun leggja áherslu á að hagsmunir Hafnfirðinga verði settir í fyrsta sæti í viðræðum við Vegagerðina um útfærslur á Reykjanesbrautinni. Það þýðir að gegnumstreymisumferð verði neðanjarðar. Við tökum ekki undir hugmyndir Sjálfstæðismanna um risavaxin mislæg gatnamót við N1 hringtorg og FH hringtorg. Slík mislæg gatnamót valda sjónmengun, loftmengun, hávaða og minnka lífsgæði íbúa í nágrenninu. Við munum ekki styðja aðgerðir sem stuðla að því að viðhalda því ástandi að hér sé hraðbraut í miðjum bæ. Langtímalsusnir þarf varðandi Reykjanesbrautina.