Björn Þorsteinsson sagnfræðingur birti áhugaverða grein um leiðina milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur í Alþýðublaði Hafnarfjarðar árið 1962. Samkvæmt útreikningum hans ferðaðist rúm milljón manna þessa leið árlega á þessum tíma. Vegurinn, sem hann sagði mjóan hlykkjóttan og hættulegan, annaði ekki þessari umferð þannig að í stað þess að ferðin tæki 12 til 15 mínútur sem var að hans áliti eðlilegur tími, tók hún 25 mínútur eða meira. Með þessum forsendum reiknaði hann út að rúmlega 20 þúsund vinnudagar árlega færu í þennan óþarfa silagang.

Vissulega er ekki hægt að jafna veginum sem liggur nú milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur við þann sem lá þar fyrir 56 árum. En staðan í dag er samt ekki ósvipuð. Á álagstímum tekur ekki minna en 25 mínútur að keyra þessa leið sem ætti réttilega ekki að taka meira en 12 til 15 mínútur og tíminn sem fer forgörðum hjá hverjum og einum er því svipaður og hann var þegar Björn skrifaði sína grein árið 1962. Langar biðraðir myndast við ljósin við Kaplakrika og gatnamót Fjarðarhrauns og Reykjavíkurvegar og á einbreiðum hluta Reykjanesvegar. Nánast öll umferð til og frá Keflavíkurflugvelli fer einnig í gegnum Hafnarfjörð, þannig að umferðarálagið á þessari leið er gífurlegt.

Miðflokkurinn ætlar að beita sé af miklum þunga fyrir úrbótum á samgöngumálum. Meðal annars með því að þrýsta á stjórnvöld um tvöföldun Reykjanesbrautar. Með flæðisgreiningu og stillingu umferðarljósa, bættri skilvirkni hringtorga og flýtingu á gerð ofanbyggðarvegar. Jafnframt með auknum almenningssamgöngum og skipulögðum frístundaakstri grunnskólabarna.

Miðflokkurinn einbeitir sér að lausnum en ekki vandamálum.

 

Arnhildur Ásdís Kolbeins

Höfundur skipar 5. sæti Miðflokksins í Hafnarfirði