Knattspyrnukonan og Hafnfirðingurinn Sara Björk Gunnarsdóttir er íþróttamaður ársins 2018. Valið var tilkynnt við athöfn í Hörpu áðan. Þá var einnig annar Hafnfirðingur, kylfingurinn Axel Bóasson, í landsliði ársins sem fékk viðurkenningu við sama tilefni. Axel var sem kunnugt er kjörinn íþróttakarl Hafnarfjarðar fyrir skömmu. 

Fyrir þau sem ekki vita, þá hannaði og smíðaði Hafnfirðingur einnig verðlaunagripinn, Ingi Bjarnason í Sign.

Þetta er í fyrsta skipti sem Sara Björk hlýtur verðlaunin en hún var ekki á meðal tíu efstu í fyrra. Hún er aðeins sjöunda konan af alls 63 einstaklingum sem hlotið hafa nafnbótina Íþróttamaður ársins. Ellefu sinnum hefur fótboltafólk hlotið verðlaunin en Sara Björk er önnur fótboltakonan sem hlýtur þau á eftir Margréti Láru Viðarsdóttur sem var íþróttamaður ársins 2007. RÚV greinir frá.

Sara Björk varð bæði þýskur meistari og bikarmeistari með Wolfsburg á árinu. Liðið fór svo alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar en tapaði gegn Lyon og meiddist Sara Björk í leiknum. Hún var fyrirliði íslenska landsliðsins en liðið náði ekki að tryggja sér sæti á heimsmeistaramótinu næsta sumar. Í lok árs var hún valin 31. besta fótboltakona heims í árlegu vali enska dagblaðsins Guardian. Þetta er í sjöunda sinn sem Sara Björk Gunnarsdóttir er á meðal tíu efstu í kjörinu. Hún varð í 4. sæti 2011 og 2014, 5. sæti 2017, 6. sæti 2013 og 2016, 8. sæti 2015.

Axel, með hljóðnemann, ásamt félögum sínum í landsliðinu. Skjáskot frá RÚV.

Íþróttakarl Hafnarfjarðar, Axel Bóasson hjá GK og meðlimur í landsliði Íslands í golfi, og vann gull á EM í Glasgow í ágúst. Landsliðið er lið ársins að mati Samtaka íþróttafréttamanna. Það skipa, Auk Axels, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Valdís Þóra Jónsdóttir og Birgir Leifur Hafþórsson.