Nú líður senn að áramótum og þá varð mér hugsað til áramótabrennunnar. Eiginlega varð mér hugsað til þess að enginn hefur minnst á brennuna við mig í mörg ár. Einu merki þess að fram fari brennur eru tilkynningarnar frá hinu opinbera sem sýna hvar búið er að finna þessum forngripum staði svo fjarri mannabyggðum að öruggt má teljast að enginn verði þeirra var.
Hér í denn tók maður þátt í að safna á brennuna, hópar krakka fóru um bæinn og drösluðu spýtum og drasli að brennustað og hlóðu á köstinn, flottast var ef fundust gömul bíldekk, þar sem af þeim kemur mun skemmtilegri reykur en af timbri. Svo mætti maður á brennuna sína að kvöldi gamlársdags.
Nú er öldin önnur (bókstaflega). Skipaður hefur verið embættismaður vopnaður símaskráarþykkum doðranti sem ber að geyma upplýsingar um allt sem ekki má fara á brennuna. Það má ekki einu sinni brenna fúavarið timbur. Þessi regluvörður er reyndar álíka hulinn venjulegu fólki og álfar og tröll þar sem fremst í reglubókinni stendur að brenna skuli staðsett utan dagsgöngufæris frá mannabyggðum. Sagt er að hann keyri um á drapplitum Volvo. Öruggum.
Eina fólkið sem fæst til að koma á þessar brennur er pólitíkusar sem vona að ljósmyndari frá bæjarblaðinu nenni að skjalfesta áhuga þeirra á menningu og uppákomum pöpulsins. Svo og reglubókarmeistarinn að sjálfsögðu sem sér til þess að slökkviliðið mæti á tilsettum tíma og slökkvi bálið á tilskyldum tíma (það stendur líka í bókinni).
Þessi regluvæðing er víðar, víðast hvar raunar. Hún er sett fram sem vel meinandi forvarnir gegn því að förum okkur að voða. En það sem hún gerir er að draga úr okkur tennurnar, fær okkur til að forðast þátttöku, líta undan, bíða eftir að yfirvöld komi og reddi okkur, vera leiðitamir sauðir. Forystusauðir eru óþægilegir.
Ég vona að fregnir berist af jólatrjáabrennum unglinga á þrettándanum.
Áramótaheit mitt er meiri borgaraleg óhlýðni.