Alls voru útskrifaðir 67 stúdentar frá Flensborgarskólanum í gær. Dúx var Selma Rún Bjarnadóttir með 9,37 en semidux Sverrir Kristinsson með 9,07. Stúdentarnir skiptust í 34 karla og 33 konur. 20 ljúka skv. nýrri námskrá. Einn nemandi lýkur námi af nýrri námsbraut á tveimur og hálfu ári. Sá fyrsti sem það gerir.

Á afrekssviði eru 13 manns en annars skiptist hópurinn svo niður á brautir:

Af félagsfræðibrautum útskrifast 26, þar af fjögur skv. nýrri námskrá. Af málabrautum er einn nemandi. Af náttúru- og raunvísindabrautum 21 þar af 4 skv. nýrri námskrá. Af viðskiptabrautum átta – þar af einn af nýrri námskrá og ellefu af opinni braut.

Daníel Scheving Hallgrímsson, formaður skólanefndar afhenti styrk úr Fræðslusjóði Jóns Þórarinssonar.

Hafdís Houmöller Einarsdóttir flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnemenda.

Nokkrir nemendur voru heiðraðir fyrir námsárangur og fleira. Meðal þeirra sem gáfu verðlaun voru:

Embætti landlæknis

Gámaþjónustan

Góa

Hádegisverðarklúbburinn.

Háskólinn í Reykjavík

Ísal í Straumsvík

Íslandsbanki

Íslenska stærðfræðifélagið

Við athöfnina sungu Kór Flensborgarskólans, sem og Flensborgarkórinn. Guðmundur Kristjánsson lék á gítar.

Úr ræðu Magnúsar Þorkelssonar, skólameistara:

„Flensborgardagurinn er afmælisdagur skólans. Við létum hann snúast um innri mál og settust starfsmenn og nemendur saman í hópa og ræddu mál skólans. Vegna þeirrar umræðu eru að fæðast tillögur um ýmislegt og sumt komið til framkvæmda. Þannig munum við gera einfaldar breytingar á stundatöflunni og nemendafélagið gerði breytingar sem efla lýðræði innan þess. Það komu fram óskir um breytingar á námskrá, verklagi, auk þess sem mjög sterk sjónarmið voru lögð fram um viðbrögð í eineltismálum og um skólasóknarreglur. Þetta mun líta dagsins ljós á næstu önn.

Í ljósi umræðunnar um einelti, sem og samfélagsumræðuna kennda við Me too, ákvað ég, í samráði við jafnréttisfulltrúann okkar,hann Örlyg Axelsson, að setja yfirlýsingu á vef skólans sem hefst svona:

„Skólameistari Flensborgarskólans minnir á að í skólanum er skýr jafnréttisstefna og skýr stefna um viðbrögð við einelti og hvers konar ofbeldi á hvaða stigi sem er.“ Yfirlýsingin er lengri og afdrátttarlaus.

Þjónustustig skólans er mjög hátt og veitir ekki af. Með tilkomu sálfræðings, kennsluráðgjafa og nánu samstarfi þessara, námsráðgjafa og stjórnenda hefur ýmislegt áunnist. … Eitt er þó víst að ef skólinn gerði þetta ekki þá væri brotthvarf frá námi miklu meira en það er. Við á hinn bóginn sjáum að með auknum þroska, einurð og seiglu þá ljúka margir námi sem ekki hefðu fengið tækifæri til þess í eina tíð. Margt af þessu fólki er nú langsskólagengið, jafnvel búið með tvær háskólagráður. Sem segir okkur að líklega er tíunda geðorðið rétt – velgengni er langhlaup.

Hér á landi er t.d. verið að vinna með eitthvað sem kallast fjölmenning í skólum, svona eins og það sé eitthvað flókið mál. Það er það raunar kannski í okkar einfalda heimi þar sem við skiptum okkur í Íslendinga og útlendinga. Þegar það er gert held ég að við gleymum því að við erum núll komma núll, núll, núll fimm promill af íbúatölu jarðar eða svo. … Við höfum hér í skólanum nemendur sem koma af ýmsum ástæðum erlendis frá. Þar eru skiptinemar, flóttamenn, innflyjendur svo nokkuð sé nefnt. Við erum líka með starfsmenn sem eru af erlendu bergi brotnir, eða hafa búið langdvölum erlendis o.s.frv. Við, sem skóli, græðum á því að fá þetta fólk til okkar. Við lærum að þrátt fyrir allskonar menningarmun þá langar okkur öll til að einfaldlega láta drauma okkar rætast.´“

 

Í kveðjuorðum sínum til útskriftarnemenda sagði hann m.a.:

„Meðan þið veltið fyrir ykkur hvað þið ætlið að gera, nú þegar þið eruð orðin stór þá skuluð þið muna að lífið gæti tekið af ykkur völdin og leitt ykkur í farveg sem þið vissuð ekki að væri til. Við getum tekið á móti framtíðinni, brugðist við henni og reynt að vera eins viðbúin og hægt er en eins og Bítillinn John Lennon sagði þá er lífið það sem gerist á meðan maður er upptekinn við að gera önnur plön…“

 

Ræðan í heild sinni:

 

Þögull en stjörnum prýddur geymur

óstöðugur heimur

samt allt svo stillt

Nótt býður tækifæri að nýju

breytir kuldanum í hlýju

og færir von.

(Erla Ragnarsdóttir/Gréta Sigurjónsdóttir)

 

Það er gaman, nú í aðdraganda jóla, að safnast saman í dag, á vetrarsólstöðum. Kannski vegna þess að vetrarsólstöður hafa orðið tilefni hátíðarhalda víða um heim í árþúsundir. Frægasta hátíðin sem frá þeim er sprottin eru Jólin sem ganga undir því nafni víða um Norður Evrópu og gerðu það fyrir daga Kristninnar. Kristnin tók síðar hátíðina yfir, færði til um örfáa daga og kallaði hana hátíð ljóssins. Í dag náði sólin að skríða tæpar þrjár gráður yfir sjóndeildarhringinn og gefa okkur dagsbirtu í fjórar klukkustundir og sjö mínútur. Nú stendur allt til bóta því frá og með deginum í dag lengist hver dagur, fyrst um mínútu, svo um tvær allt þangað til að 21. júní rennur upp og sól sest um miðnætti, rís kl. um þrjú að nóttu og aldrei dimmir.

Það er því við hæfi að þegar þið hafið verið útskrifuð þá taki framtíðin við ykkur með hækkandi sól.

Haustönnin fór af stað með hefðbundnum hætti. Og þó. Vissulega voru fundarhöld og nýnemaferð  en nýnemadansleikurinn reyndist sannarlega stórdansleikur þar sem hiphop tónlistarmenn stóðu fyrir sínu. Ekki var nóg með að hingað kæmu danskir rapparar og reyndar íslenskir líka. Segja má að aðalstjörnurnar hafi ekki aðeins verið íslenskar. Um var að ræða dúett, þá Jóa P og Króla, en Króli – Kristinn Óli er nemandi hér. Þeir áttu mest spilaða lagið á Spotify þá um stundir. Lagið var algjör Bomba- og heitir það!

Flensborgarhlaupið gaf af sér fjögur hundruð þúsund krónur sem fóru til deildar á Reykjalundi sem vinnur með ungt fólk með heilaskaða. Oftast er um að ræða fólk sem lenti í slysum. Þarna fer merkilegt starf fram. Sem betur fer sleppa flestir úr slysum án heilaskaða. Hins vegar er unga fólkið okkar í áhættuhópum á svo mörgum sviðum og því er vert að vekja athygli á þessu.

Flensborgardagurinn er afmælisdagur skólans. Við létum hann snúast um innri mál og settust starfsmenn og nemendur saman í hópa og ræddu mál skólans. Vegna þeirrar umræðu eru að fæðast tillögur um ýmislegt og sumt komið til framkvæmda. Þannig munum við gera einfaldar breytingar á stundatöflunni og nemendafélagið gerði breytingar sem efla lýðræði innan þess. Það komu fram óskir um breytingar á námskrá, verklagi, auk þess sem mjög sterk sjónarmið voru lögð fram um viðbrögð í eineltismálum og um skólasóknarreglur. Þetta mun líta dagsins ljós á næstu önn.

Í ljósi umræðunnar um einelti, sem og samfélagsumræðuna kennda við Me too, ákvað ég, í samráði við jafnréttisfulltrúann okkar,hann Örlyg Axelsson, að setja yfirlýsingu á vef skólans sem hefst svona:

„Skólameistari Flensborgarskólans minnir á að í skólanum er skýr jafnréttisstefna og skýr stefna um viðbrögð við einelti og hvers konar ofbeldi á hvaða stigi sem er.“ Yfirlýsingin er lengri og afdrátttarlaus.

Heilsueflandi framhaldsskóli er eitt af flaggskipum okkar. Nú eru árin orðin níu. Þetta verkefni er orðinn hluti af okkar starfi, fastur hluti, um leið og það elur af sér einhverjar nýjungar á hverju ári.

Ég vil hrósa nemendafélaginu fyrir hreint frábæra haustönn. Nú eru framundan stór verkefni og ég hlakka til að vinna þau með þeim.

Samstarf NFF og skólans hefur verið vaxandi og ánægjulegt að finna að það er aukinn áhugi á því að ræða málefni nemenda, ekki einvörðungu skemmtanahald.

Við finnum síaukinn áhuga á málefnum skólans t.d. í gegnum foreldraráðið. Slíkk tengsl eru okkur holl og góð. Nýlega var svo skipuð ný skólanefnd og hygg ég að meðalaldur fulltrúa í henni hafi aldrei verið lægri og langstærsti hópurinn eru Flensborgarar, á einn eða annan hátt.

Þjónustustig skólans er mjög hátt og veitir ekki af. Með tilkomu sálfræðings, kennsluráðgjafa og nánu samstarfi þessara, námsráðgjafa og stjórnenda hefur ýmislegt áunnist. En það er vissulega íhugunaratriði hvort skólinn sé á réttum stað þegar hann er farinn að veita þjónustu á sviði  félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu . Að mínu viti er það óhjákvæmilegt en það væri vissulega til bóta að stjórnvöld útfærðu með okkur hvernig þetta eigi að gerast fremur en láta okkur um það sjálf. Eitt er þó víst að ef skólinn gerði þetta ekki þá væri brotthvarf frá námi miklu meira en það er. Við á hinn bóginn sjáum að með auknum þroska, einurð og seiglu þá ljúka margir námi sem ekki hefðu fengið tækifæri til þess í eina tíð. Margt af þessu fólki er nú langsskólagengið, jafnvel búið með tvær háskólagráður. Sem segir okkur að líklega er tíunda geðorðið rétt – velgengni er langhlaup.

Við viljum líka kappkosta að sjá til þess að nemandi geti fléttað hugðarefnum sínum, s.s. íþróttum, björgunarsveitum og listnámi saman við námið hér. Nemendur eiga ekki að þurfa velja milli skólanáms og t.d. afreksíþrótta. Við erum að vísu svolítið stygg við fólk sem sýnir sérlega hæfileika í næturvökum og tölvuleikjum en það er annað.

Á haustönn var skólinn málaður að innan, stórir hlutar hans alla vega. Þá fengum við leyfi til að setja nafn skólans og merki hans á gaflinn sem snýr upp á Hringbraut.

Á nýliðnu hausti urðu ekki miklar breytingar á starfsmannahópi skólans.

Jennifer Louise McNamara, Dröfn Jónasdóttir, kennarar og Kristrún Ólöf Sigurðardóttir sálfræðingur komu sterkar inn.

Úlfur Einarsson, Júlíus Andri Þórðarson og Sólveig Hlín Sigurðardóttir hverfa frá störfum og er eftirsjá í öllum þremur.

Fjárlögin ætla ég ekki að gera að umtalsefni. Rétt eins og manni tekst alltaf að fylla alla skápa þá tekst manni að ráðstafa hverri krónu og gæti notað sumar tvisvar. Við þurftum að fara í verulega hagræðingu sem ekki er lokið. Fyrir utan mikla hagræðingu í öllum störfum þá var yfirstjórn skólans minnkuð um tvö og hálft stöðugildi. Allir urðu fyrir þessu, mismikið og hafa starfsmenn sýnt mikið langlundargeð í þessum óhjákvæmilega niðurskurði. Það er markmið okkar að það sé ekki viðvarandi umræðuefni að Flensborgarskólinn sé með skuldahala.

Aðal málið er að við getum sinnt nemendum okkar og námslegum þörfum þeirra.

Við stefnum inn í hátíð ljóssins, eftir nokkurn óróa innanlands og utan. Orðaskak stjórnmálamanna, sem byggja á vinsældahyggju, þjóðernishyggju sem kallar á flokkadrætti og niðurröðun hópa eftir einhverri ímyndaðri virðingu, menningarlegri einangrun og jafnvel ofbeldi vekur ugg. Hér á landi er t.d. verið að vinna með eitthvað sem kallast fjölmenning í skólum, svona eins og það sé eitthvað flókið mál. Það er það raunar kannski í okkar einfalda heimi þar sem við skiptum okkur í Íslendinga og útlendinga. Þegar það er gert held ég að við gleymum því að við erum núll komma núll, núll, núll fimm promill af íbúatölu jarðar eða svo. Það er óralöng hefð fyrir því að kenna íslenskum skólabörnum að þjóð sé hópur fólks sem á sameiginlegan menningararf, talar sömu tungu og býr á sama svæði eða innan sömu landamæra. Ég ætla aðeins að segja það að svona hugsun er hættuleg. Við höfum hér í skólanum nemendur sem koma af ýmsum ástæðum erlendis frá. Þar eru skiptinemar, flóttamenn, innflyjendur svo nokkuð sé nefnt. Við erum líka með starfsmenn sem eru af erlendu bergi brotnir, eða hafa búið langdvölum erlendis o.s.frv. Við, sem skóli, græðum á því að fá þetta fólk til okkar. Við lærum að þrátt fyrir allskonar menningarmun þá langar okkur öll til að einfaldlega láta drauma okkar rætast. Þankagangur okkar er í grunninn sá sami, án tillits til litar, trúar, tungutaks eða annars sem við hér á landi erum vön að nota til að skilja aðra frá okkur. Í svona málum ber skóla að veita skjól, veita fræðslu og opna huga nemenda okkar fyrir öllu því stórfenglega sem gerist á hverjum degi um allan heim og engir símar eða annars konar tölvur geta kennt okkur því skóli er samfélag og mannleg samskipti skipta okkur miklu.

 

 

Kæru útskriftarnemendur

Þið eruð nú orðin hluti af þeim hópi sem lokið hefur námi við Flensborg. Sú saga nær aftur um 135 ár. Þegar fram líða stundir getið þið sótt um styrk í Fræðslusjóðinn og án efa munu einhver ykkar snúa aftur og vilja fara að kenna hjá okkur. Eða annars staðar. Sjáum til.

Ég nefndi áðan skilgreiningu á orðinu þjóð. Ástæða þess að það er ofarlega í huga mér er það að ég ferðaðist til Asíu í haust og kom við á Indlandi og í Dubai. Vitaskuld voru þetta engir landafundir en ferðin opnaði augu mín fyrir ýmsu.

Meðal annars því að Indverjar líta á sig sem þjóð, þó svo þar séu 23 opinberlega viðurkennd tungumál. Hér á landi erum við að basla með okkar litlu þjóð og þetta eina, þetta fallega tungumál okkar.

Það var fleira sem vakti athygli mína. Það var það sem ég leit á sem fátækt. Fólk sem hafði í árslaun minna en myndavélin mín kostaði. Og hún var ekkert sérlega dýr. Ég spurði um þetta fólk og mér var bent á að stórir hópar t.d. götusala líta ekki á sig sem fátæka. Þeir telja sig margir afla nógu mikils fyrir sig og sína.

 

Nú ætla ég ekki að leggja til að við setjumst niður og reynum ekki að sækja fram. En það eru mörg handtök sem við getum unnið. Þið leggið ykkar lóð á vogarskálarnar með gjöf ykkar til BUGL – barna og unglingageðdeildar landspítalans.

Styrkþegi Fræðslusjóðs Jóns Þórarinssonar 2017 er núna í Suður Ameríku að vinna með hjálparsamtökum og stefnir á nám sem opnar henni dyr að alþjóða hjálparstofnunum. Þetta er líka leið. Tengist leiðinni að láta sig varða um aðra.

Meðan þið veltið fyrir ykkur hvað þið ætlið að gera, nú þegar þið eruð orðin stór þá skuluð þið muna að lífið gæti tekið af ykkur völdin og leitt ykkur í farveg sem þið vissuð ekki að væri til. Við getum tekið á móti framtíðinni, brugðist við henni og reynt að vera eins viðbúin og hægt er en eins og Bítillinn John Lennon (ég vona að þið vitið hver hann var…) eins og Bítillinn John Lennon sagði þá er lífið það sem gerist á meðan maður er upptekinn við að gera önnur plön.

Sækið fram, haldið í vinina sem þið eignuðust hér, ræktið hugann og hjartað en hvað sem þið gerið látið ekki græðgi og valdafíkn stjórna ykkur. Einmitt þessa dagana stendur okkur ógn af slíkum mönnum á alþjóðavettvangi.

Vandið ykkur, ígrundið og pælið og munið að láta hjartað ráða för. Því það er betra að vera fyrsta flokks útgáfa af sjálfum sér en að reyna að vera jafnvel hundleið útgáfa af einhverju sem mann langar ekki til að vera en aðrir vilja að maður sé.

Veljið með hliðsjón af væntingum ykkar, þess sem hjartað segir ykkur og munið að við verðum aldrei fullnuma og þess vegna leitum við áfram að því sem bætir líf okkar, en ekki síður líf annarra. Það er gaman að breyta heiminum, krefjandi en gaman. Til þess þarf seiglu og úthald.

Farnist ykkur vel, kíkið við og leyfið okkur, sem eftir sitjum, að heyra af ykkur.

Framtíðina eigið þið. Vegurinn sem þið farið er ykkar vegur. Hann getið þið gengið með öðrum en aðrir ganga hann ekki fyrir ykkur.

Með þessum orðum færi ég öllum sem hér eru hamingjuóskir með daginn og um leið og ég lýsi því yfir að haustönn 2017 sé lokið þá óska ég ykkur gleðilegra jóla.