Kristbjörg Kari Sólmundsdóttir hefur fengist við tónlist nánast alla tíð. Hún starfar sem kennari og tónlistarkona í dag enda bæði íslenskukennari og óperusöngkona að mennt auk þess að vera að vinna að mastersritgerð í viðskiptafræðum. Kristbjörg hefur samið tíu lög við ljóð Steins Steinars og ætlar að flytja þau á tónleikum í Fríkirkjunni í Reykjavík , fimmtudaginn 13. október n.k.

„Mér skilst að ég hafi nánast fæðst syngjandi og söng og talaði út í eitt eftir það,“ segir Kristbjörg brosandi. Hún flutti fjögurra ára gömul með foreldrum sínum og bróður í Hafnarfjörð þar sem hún býr í dag ásamt eiginmanni og tveimur sonum. „Ég átti dásamlega æsku og fór níu ára gömul að syngja með barnakór Öldutúnsskóla og söng með honum út alla skólagönguna og ferðaðist með kórnum um allan heim. Eftir grunnskóla fór ég í MR og tók þátt í söngvakeppnum þar og söng alla menntaskólagönguna, stofnaði hljómsveit og byrjaði að semja tónlist upp úr því.“ Kristbjörg hóf söngnám í Söngskólanum í Reykjavík með menntaskólanámi og lauk 8. stigi í óperusöng 23 ára gömul.

Freistaði gæfunnar í London

„Ég fór síðan í eitt ár í framhaldsnám til Vínarborgar en hafði meiri áhuga á að vinna í mínu efni og syngja það, hafði meiri þörf fyrir að skapa svo það varð ofan á.“ Þaðan lá leiðin til London þar sem hún vann í því að koma sér á framfæri um tíma. „Ég fékk góð viðbrögð þar frá fólki innan tónlistargeirans, m.a. útgáfufyrirtækjum en langaði ekki að standa í þessu ein og vildi koma heim og koma mér vel fyrir en jafnframt vinna í tónlist eins og hægt væri. Ég kynntist fljótlega manninum mínum, Birni Árnasyni, sem starfar sem sérfræðingur í banka en er tónlistarmaður í grunninn og starfaði sem slíkur m.a. í New York í nokkur ár. Við stofnuðum fjölskyldu og komum okkur upp heimastúdíói.“

Þau hjónin gáfu út lag á safndisk og tóku síðan upp heilan disk með eigin efni sem kom út árið 2003 og fékk hann ljómandi góða dóma að sögn Kristbjargar.

„Við höfum auk þess átt lög saman sem hafa fengið ágætis útvarpsspilun í gegnum tíðina og Björn hefur verið að vinna að sínu tónlistarefni sem hefur komið út í Bretlandi. Síðustu ár hef ég síðan verið að færa mig meira í jazzinn og hef haldið nokkra tónleika með jazzhljómsveit sem ég kann mjög vel við.“

Steinn Steinarr

Kristbjörg Kari Sólmundsdóttir

Kristbjörg Kari Sólmundsdóttir

Kristbjörg segir það hafa í raun verið tilviljun að hún fór að semja lög við ljóð Steins Steinars. „Ég hafði fengið í fermingargjöf ljóðabók hans sem ég hafði í raun aldrei skoðað. Svo var það einn daginn þegar ég var að semja á píanóinu að mér datt í hug að semja lög við texta annarra þar sem ég er mun betri lagasmiður en textasmiður og þannig fór boltinn af stað.“

Árið 2008 komu út tvö lög hennar við ljóð Steins Steinars á safnplötunni „Aldarminning“ þar sem fjöldi þekktra og óþekktra laga við ljóð Steins voru tekin saman.

„Það var eitthvað við neistann í ljóðum hans sem heillaði mig, einhver blanda af ástríðu, kaldhæðni og lífsheimspeki um líf og tilveru manna, eitthvað svo umbúðalaust, djúpt og hressandi. Það er vel skiljanlegt að popptónlistarmenn hafi töluvert samið við ljóð Steins því hann er dálítið uppreisnargjarn sem hefur jafnan þótt eftirsóknarvert í listum, eitthvað nýtt og spennandi. Það hafa í gegnum tíðina verið samin lög við sum af þeim ljóðum sem ég hef samið lög við. Það truflar mig samt ekki enda hef ég mikla trú á lögunum mínum,“ segir Kristbjörg.

„Ljóð Steins eru að mörgu leyti tímalaus og eiga þar af leiðandi vel við í dag. Hann fjallar um pólitíkina, samfélagið, mannlegt eðli, náttúruna, heimspekina og veltir fram tímalausum spurningum um lífið, tilveruna og mannúðina sem er og hefur alltaf verið umfjöllunarefni á öllum tímum.“

Tónleikar í kvöld

Tónleikarnir „Tíminn og vatnið — ný og eldri lög við ljóð Steins Steinars“ verða haldnir í kvöld, fimmtudaginn 13. október klukkan 20:00 í Fríkirkjunni í Reykjavík. Þar mun Kristbjörg frumflytja tíu lög við ljóð skáldsins ásamt Birni Árnasyni píanóleikara auk þess sem söngkonan Svava Kristín Ingólfsdóttir mun flytja lög Bergþóru Árnadóttur við ljóð Steins við undirleik hafnfirska gítarleikarans Arnar Arnarsonar og Bræðrabandsins.

Gestasöngkona kvöldsins verður hafnfirska stórsöngkonan Margrét Eir sem mun flytja tvö af lögum Kristbjargar. Aðgangseyrir er 2.000 krónur.

Útgáfa fram undan

Aðspurð segist Kristbjörg hafa verið hvött til þess að gefa út tónlistina og segist vera að skoða það þessa dagana ásamt samstarfsfólki sínu.

„Fram undan er meira tónleikahald og tónlistarsköpun enda hef ég mikinn áhuga á að koma tónsmíðum mínum á framfæri bæði hérlendis og erlendis, ekki síst í kvikmyndum. Tíminn mun síðan leiða í ljós hvað verður,“ segir þessi glaðlynda tónlistarkona að lokum spennt fyrir kvöldinu.