Sigríður Margrét Jónsdóttir opnaði Litlu Hönnunar Búðina við Strandgötu fyrir þremur árum. Verslunin fagnaði þriggja ára afmæli á dögunum og Fjarðarpósturinn rak inn nefið.

„Þetta átti að vera vinnustofa en þróaðist yfir í það að verða verslun, eiginlega fyrir algjöra tilviljun,“ segir Sigríður og tekur fram að hvatinn hafi frá upphafi verið að bjóða upp á eitthvað sem sé öðruvísi en annars staðar. „Við vildum skapa okkur sérstöðu og erum t.a.m. með verk eftir nokkra íslenska listamenn og hönnuði sem við erum afar stolt af. Einnig kaupum við hluti erlendis frá en veljum vel hvaðan hlutirnir koma og hvernig þeir eru gerðir, þ.e.a.s við viljum þekkja framleiðsluferli og gæði varanna sem við seljum og þær eru þá bara til hjá okkur. Við kappkostum einnig að kaupa af hönnuðum sem eru litlir og/eða nýir. Svona dálítið eins og við erum,“ segir hún glaðlega.

Þakklát fyrir móttökurnar

Sigríður segist afar þakklát fyrir móttökurnar á undanförnum þremur árum. „Við höfum farið hægt af stað og fólk kynnist okkur smátt og smátt. Ég er líka ofboðslega þakklát fyrir hvað Hafnfirðingar hafa hjarta fyrir því að versla í heimabyggð. Ég finn alveg fyrir því.“ Einnig komi töluvert af fólki í verslunina víðs vegar af landinu. „Við erum með netverslun í gegnum síðuna okkar www.litlahonnunarbudin.is og vegna þess að ég vil að allir eigi þess kost að geta pantað frá okkur óháð fjarlægð, þá greiðum við sendingarkostnaðinn sjálf.“