Bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar sendi eftirfarandi tölvupóst á þingmenn Suðvesturkjördæmis og Samgönguráðherra í gær í kjölfar enn eins alvarlegs umferðaslyssins á Reykjanesbrautinni á dögunum. Það var á hinum þekkta slysakafla innan Hafnarfjarðar frá Kaldárselsvegi að mislægum gatnamótum við Krýsuvíkurveg. Bæjarstjórinn hefur sent sama hóp ítrekað pósta um alvarlegt ástand þessa vegkafla.

 

Samgönguráðherra og þingmenn Suðvesturkjördæmis,

Vísað er í fyrri bréf og pósta til ykkar varðandi þetta brýna hagsmunamál okkar Hafnfirðinga.

Enn eitt alvarlegt umferðarslys varð í síðustu viku á Reykjanesbrautinni innan Hafnarfjarðar á vegkaflanum frá Kaldárselsvegi að mislægum gatnamótum við Krýsuvíkurveg.  Um er að ræða hluta af Reykjanesbraut innan Hafnarfjarðar þar sem tvöföldun brautarinnar hefur ekki verið lokið.  Einn umferðamesti vegkafli landsins þrátt fyrir það er um að ræða einn veg með akstursstefnu í sitt hvora átt.  Samgöngustofa hefur tekið saman í ársskýrslu slysaskráningar fyrir  árið 2015 og samkvæmt henni voru slys á vegkaflanum frá Kaldárselsvegi að Krýsuvíkurvegi (með gatnamótum) rúmlega 100 á því ári.  Þessi vegkafli er 3,5 km sem gefur gildið 28 slys á km.  Umferð um þennan vegkafla hefur aukist umtalsvert á síðustu árum og fyrirsjáanlegt er að hún mun aukast enn frekar á næstu misserum með aukinni byggð á Völlunum í Hafnarfirði, þar sem m.a. er nánast eina skipulagða iðnaðar- og þjónustuhverfið á höfuðborgarsvæðinu, þar sem lóðir eru lausar, ört vaxandi byggð á Suðurnesjum, aukinn ferðamannastraumur o.s.frv.  Ekki þarf að fara mörgum orðum um það hvernig Reykjanesbrautin liggur í gegnum Hafnarfjörð nánast miðjan.  Vegna legu brautarinnar innan Hafnarfjarðar komast Hafnfirðingar ekki hjá því að fara um brautina flestir daglega.  Það er algjörlega óásættanlegt að íbúar í Hafnarfirði þurfi að búa við þessa miklu slysahættu sem Reykjanesbrautin er innan sveitarfélagsins.

Í ritinu Frumvarp til fjárlaga 2018 segir m.a. á bls. 263 „Þá verður um 600 m.kr. varið til framkvæmda við Reykjanesbraut,….“.  Ekki er að finna að gerð hafi verið breyting á þessu við afgreiðslu fjárlaga.  Með hliðsjón af því er skýrt að löggjafinn ætlar 600 milljónum króna í framkvæmdir við Reykjanesbrautina í ár.  Nú liggur fyrir að fara á í bráðabirgðaframkvæmd við Reykjanesbrautina nánar tiltekið við gatnamót við Kaplakrika.  Samkvæmt upplýsingum sem undirritaður hefur aflað sér er áætlaður kostnaðar við þessa framkvæmd innan við 100 milljónir króna, eða á bilinu 70 til 100 milljónir króna.  Gangi það eftir standa eftir af þessari fjárveitingu a.m.k. 500 milljónir króna.

Nú hefur verið samþykkt að veita um fjórum milljörðum króna til viðbótar í vegmál umfram það sem samþykkt var á fjárlögum.  Með vísan til þess er skorað á samgönguráðherra og þingmenn Suðvesturkjördæmis að sjá til þess að 2 til 300 milljónir króna fáist af þessari fjárveitingu í ár til framkvæmda við Reykjanesbrautina innan Hafnarfjarðar þannig að til ráðstöfunar verði allt að 800 milljónir til viðbótar við það sem ætlað er í bráðabirgðaframkvæmd við gatnamót við Kaplakrika.

Útboðsgögn vegna tvöföldunar á Reykjanesbraut frá Kaldárselsvegi að mislægum gatnamótum við Krísuvikurveg liggja fyrir svo til tilbúin þannig að ekkert á að vera því til fyrirstöðu að bjóða verkið út.

Skorað er á samgönguráðherra og þingmenn Suðvesturkjördæmis að sjá til þess að framkvæmdin verði boðin nú þegar út þannig að framkvæmdir hefjist í ár og ljúki á næsta ári.

Verði ekki af þessu er óskað skýringa á því hvernig framkvæmdavaldið gerir ráð fyrir að verja þeim 600 milljónum króna sem löggjafavaldið samþykkti í framkvæmdir við Reykjanesbrautina  árið 2018 samanber framanritað.

 

Mynd: Hersir Gíslason.