Skartgripafyrirtækið Sign var stofnað árið 2004 í bílskúrnum hjá gullsmiðnum Sigurði Inga Bjarnasyni (Inga) sem í dag rekur það ásamt unnustu sinni, Kötlu Guðmundsdóttur. Árið 2008 flutti fyrirtækið í fyrrum verbúð við höfnina. Helsta skáldagyðja Sign er íslenska náttúran og ein þekktasta hönnun Inga er verðlaunagripur Íþróttamanns ársins.

„Þeir sem stunduðu grásleppuveiðar voru með aðstöðu þar sem Kænan er. Pabbi minn, bræður hans og mágur áttu þetta bil upphaflega sem fyrirtækið er í og ég keypti það af þeim. Þetta er sjarmerandi staður. Ég er alinn upp hér á bryggjunni og í Suðurbænum og var að vinna í fiski á þessum slóðum,“ rifjar Ingi upp. Áhugi á skartgripagerð kviknaði í starfskynningu hjá Jens gullsmið þegar Ingi var 15 ára, en þar smíðaði hann hálsmen og hring. „Ég lærði svo hjá Ívari Björnssyni og vann lengi hjá Leifi Jónssyni gullsmíðameistara. Árið 2001 varð ég sjálfstæður og hef verið það síðan. Ég var þá kominn með mikla tengingu við kúnna um allt land. Vinnudagurinn varð strax fullur hjá mér og hefur verið það síðan.“

Herra- eða dömuskart?

Þegar reksturinn flutti í núverandi húsnæði 2008 þróaðist hann í að verða heilmikil verslun, m.a. vegna staðsetningarinnar. Katla kom inn í reksturinn sem framkvæmdastjóri árið 2010 og Sign er með nálægt 50 söluaðila um allt land. Þau stækkuðu síðan við sig en segjast þó vera að sprengja allt utan af sér. „Hér starfa 6-7 manns og við veitum góða þjónustu og leggjum metnað í að gera fallega og vandaða hluti. Aldurshópur viðskiptavina er mjög víður því línurnar okkar eru mjög breiðar. Katla kom inn með sína línu í haust sem er meira fyrir yngri kúnna. Það er þó ekki til sá herrahringur sem ég hef smíðað sem konur hafa ekki keypt líka. Það er svo erfitt að segja hvað er herra- eða dömuskart,“ segir Ingi og bætir við þau séu mjög heppin með kúnna og að það skipti líka máli að vera opin fyrir ýmsu, t.d. í sérsmíði.

Sérsmíðuðu fyrir Elly

Auk hönnunar og sérsmíði hefur Sign styrkt margt þekkt listafólk og tekið þátt í ýmsum verkefnum eins fegurðarsamkeppnum, fitness-mótum, sjónvarpsþáttunum Föngum og söngleiknum Ellý. „Við smíðuðum skart sérstaklega fyrir Elly. Það var spennandi tímabil og það má alveg reikna með að eitthvað úr þeirri línu fari í sölu.“ Þá séu Vesturport-ara vinir þeirra sem þau vilji gera allt sem þau geta fyrir. „Við eigum þeim líka svo margt að þakka vegna þátttöku í auglýsingum. Það sem maður gerir óvart skilar oft bestum árangri,“ segir Ingi.

Ávallt líf og fjör og gestkvæmt í bækistöðvum Sign við Fornubúðir.

Ávallt líf og fjör og gestkvæmt í bækistöðvum Sign við Fornubúðir. Hér er starfsfólkið í stuði. Myndir: ÓMS

Fjarðbúð og hestamennska

Samtals eiga Ingi og Katla sjö börn á aldrinum 7-25 ára, auk tíkanna Kríu og Lottu. Katla býr á Álftanesi og Ingi í Hafnafirði. „Við erum þó mikið saman og þetta er þægilegt fyrirkomulag. Við sameinumst í hestamennsku og rekstrinum. „Við erum líka með mjög skemmtilega kúnna. Þeir fylgjast vel með og bera bara skart frá okkur, Sign-arar. Við vekjum athygli á nýrri vöru einu sinni á ári, fyrir jólin. Erum þó oft spurð að því hvort ekki sé komið eitthvað nýtt,“ segir Katla og brosir.

Verðlaunagripur Íþróttamanns ársins

Þá finnst þeim mikill heiður að taka þátt í verkefnum eins og fyrir Vildarbörn og Bleiku slaufuna. „Líka að hanna verðlaunagripinn fyrir Íþróttamann ársins. Hann er hafnfirskur og ég lagði upp með að hann yrði eins íslenskur og hægt væri. Notaði 50 ára gamalt birki, hraun, málma og gler. Þegar hópar af krökkum koma til ÍSÍ verða þau uppnumin við að sjá gripinn og hann virkar hvetjandi. Enda verður hann afhentur í 50 ár samfleytt og fer þaðan á Þjóðminjasafnið. Ég er sem sagt búnn að tryggja mér pláss þar, “ segir Ingi og hlær.