Miðbærinn er eitt af því sem gerir Hafnarfjörð frábrugðinn öðrum sveitafélögum á höfuðborgarsvæðinu, fyrir utan Reykjavík. Það er í raun miðbærinn sem skilgreinir svolítið hvert bæjarfélag. Það bæjarfélag sem ekki á sinn miðbæ verður alltaf í smá tilvistarkreppu. Það vantar eitthvað. Það má því sagja að miðbærinn sé nafli hvers bæjarfélags.

Miðbærinn í Hafnarfirði er búinn að breytast mikið á síðust árum og er á góðri leið með að verða frábær. Jólaþorpið er t.d. nauðsynlegur partur af jólum margra Íslendinga og svo höfum þar líka frábær kaffihús og veitingastaði og flottar verslanir sem fólk heimsækir víðsvegar að. Það eru samt fullt af ónýttum tækifærum tengd miðbænum. Við getum vel fært meira líf í hann ef vilji er fyrir hendi.

Það er algengt að í deiliskipulagi miðbæja sé reynt stýra ákveðinni verslun eða þjónustu á vissa staði í þeim tilgangi að fanga athygli fólks og gera svæðið áhugavert og eftirsótt. Það vantar mikið upp á slíka hugsun í deiliskipulag miðbæjar Hafnarfjarðar. Sem dæmi um það hefur mér þótt afar sérstakt að á jarðhæð við aðalgötu bæjarins séu stjórnmálaflokkar með fastar kosningaskrifstofur allan ársins hring. Hversu gott er það fyrir lífið í miðbænum? Það er pottþétt frábært að hafa slíka aðstöðu, en þetta eru engu að síður dýrmæt rými sem eru steindauð fyrir utan nokkrar vikur fyrir kosningar.

Bæjarlistinn vill að deiluskipulagið í miðbænum verði endurskoðað með þessi atriði í huga. Miðbærinn skiptir alla bæjarbúa máli og við þurfum að gera skemmtilegan miðbæ enn betri. Við viljum líf í miðbæinn allt árið fyrir alla.

Birgir Örn Guðjónsson