Í síðustu viku var Skarðshlíðarskóli í Hafnarfirði opnaður formlega með nemendum og starfsmönnum en á morgun mun verktaki formlega afhenda bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði lykilinn að skólanum og þar með marka lok á fyrsta áfanga uppbyggingarinnar. Meðfylgjandi myndir voru teknar við formlegu opnunina. 

Jón Jónsson, sem gladdi viðstadda með söng og gleði, Ingibjörg skólastjóri, Gunnella Hólmarsdóttir og nokkrir hressir nemendur.


Aðeins um Skarðshlíðarskóla

Skarðshlíðarskóli tók til starfa haustið 2017 í bráðabirgðahúsnæði en flutti nýverið í glæsilega nýbyggingu í Skarðshlíð í Hafnarfirði. Í fyrsta áfanga uppbyggingar á skólanum eru nemendur skólans í 1. – 4. bekk, í heild 97 nemendur í sex bekkjardeildum. Skólinn er áttundi grunnskóli bæjarins og þegar hann verður fullbyggður verður hann tveggja hliðstæðu grunnskóli með um 400-500 nemendur. Gert er ráð fyrir fjögurra deilda leikskóla fyrir 80-90 nemendur og útibúi frá Tónlistarskóla Hafnarfjarðar sem getur annað allt að 200 nemendum. Sérstaða skólans er að leik-, grunn- og tónlistarskóli verða reknir á sama stað og áhersla verður á sviðslistir (dans og leiklist) í kennslu. Fyrsta áfanga framkvæmdarinnar er lokið og er gert ráð fyrir að sumarið 2019 verði húsnæði fyrir leikskólann tilbúið og að ári síðar, eða sumarið 2020, verði skólinn fullbyggður, þ.e. grunn- og leikskóli, tónlistarskóli og íþróttahús. Allar byggingarnar eru hannaðar samkvæmt hugmyndafræði algildrar hönnunar en í því felst að hanna góðar lausnir með jafnrétti og vellíðan allra í fyrirrúmi.

Ingibjörg Magnúsdóttir skólastjóri Skarðshlíðarskóla startaði Míluverkefni með tæplega 150 nemendum skólans, fyrr í haust.

Myndir: Hafnarfjarðarbær.