Okkar fólk í framboði til Alþingis

Fjarðarpósturinn hafði samband við þá Hafnfirðinga sem skipa efstu sæti á framboðslista hvers stjórnmálaafls fyrir sig og munu þeir kynna sig og stefnu síns flokks í þessu tölublaði og í næstu viku.

 

Það er vinnuþrælkun að gera upptæk öll laun öryrkja og eldri borgara á sama tíma og þingmenn eru ekki skertir um krónu. Þá er það eignaupptaka að 60 þúsund krónu lífeyrissjóðslaun skila ekki krónu til lífeyrislaunaþega.

Svona var þetta ekki 1988 við upptöku staðgreiðslu skatta. Þá var lífeyrir Tryggingastofnun ríkisins skatta- og skerðingalaus og það var um 30% afgangur upp í lífeyrissjóðstekjurnar og lægstu laun án skatts.

Þetta væri yfir þrjúhundruð þúsund krónur tekjur í vasann í dag, ef ekki væri búið að hækka skattinn á okkur og koma með því stórum hóp okkar í sára fátækt. Allar ríkisstjórnir frá 1988 hafa tekið þátt í að stórhækka skatta og að gera skerðingaskattakerfið að því óréttlæti sem það er í dag.

Þá hafa ríkisstjórnirnar einnig stórhækkað laun þingmanna og ráðherra og það afturvirkt, en ekki króna fyrir okkur.

Guðmundur Ingi Kristinsson

Varaformaður Flokks fólksins og í 1. sæti í Suðvesturkjördæmi.